miðvikudagur, 20. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Verð á leigukvóta í sögulegu hámarki

29. apríl 2011 kl. 11:00

Þorskur

Leiguverð á þorski komið í 325 krónur á kílóið

Verð á leigukvóta í þorski er nú í sögulegu hámarki í aflamarkskerfinu, eða 325 krónur á kíló, en 285 krónur á kíló í krókaaflamarkskerfinu. Að jafnaði er verðið um 16% hærra í aflamarkskerfinu en fyrir ári síðan og ríflega 5% hærra í krókaaflamarkskerfinu, að því er fram kemur í frétt á Fiskistofu.

Í fréttinni er rýnt í verðþróun á afla- og krókaaflamarki í þorski á tímabilinu frá 1. janúar 2005 til 20. apríl 2011. Miðað er við hæsta verð hvern dag í viðskiptum með aflamark/krókaaflamark sem flutt er milli óskyldra aðila. Reynslan kennir að hæsta verðið dag hvern lýsir verðþróuninni best.

Verð á aflamarki hefur farið hækkandi á tímabilinu. Áhrif bankahrunsins sem varð á haustmánuðum 2008 olli þó tímabundnu verðhruni í báðum fiskveiðistjórnunarkerfunum en það reis hratt aftur á vormánuðum 2009.

Eftir stöðugleikatímabil frá vormánuðum 2009 fram að síðustu áramótum tók verðið að hækka að nýju í aflamarkinu en hefur verið heldur stöðugra í krókaaflamarkinu. Verð í krókaaflamarki hefur alltaf verið nokkru lægra en í aflamarki og verðsveiflur í kerfunum hafa fylgst að, segir á vef Fiskistofu.