fimmtudagur, 24. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Verða í heild tíu skip

Guðjón Guðmundsson
3. febrúar 2019 kl. 16:00

Tölvugerð mynd af skipi Nautic fyrir Norebo. MYND/NAUTIC

Nýsmíðasamningur Norebo við Nautic stækkar.

Norebo, stærsta útgerðarfyrirtæki Rússlands, hefur ákveðið að fjölga frystitogurum sem Severnaya skipasmíðastöðin smíðar eftir hönnun íslenska verkfræðifyrirtækisins Nautic úr sex í tíu. Sex af skipunum verða við veiðar í Norður-Íshafi en seinni fjögur skipin í Kyrrahafinu úti af austurhéröðum Rússlands.

Kjölur var lagður að fyrsta skipinu, Kapitan Sokolov, í nóvember sl. en áætlað er að skipasmíðastöðin afhendi kaupendum nýju fjögur skipin á árunum 2020-2023. Hvert þeirra kostar fullbúið 3,5 milljarða rúblna, um 6,3 milljarða. Norebo heldur á stærsta kvótanum í Rússlandi sem er um 500.000 tonn.

 Góð byrjun á árinu

„Ekki hægt að óska sér betri byrjun á árinu en við erum að fá hérna hjá Nautic Rus! Nýsmíðaserían fyrir Norebo er nú orðin að 10 skipum þar sem fjórum skipum var bætt við samninginn í byrjun vikunnar," segir Hrafnkell Tulinius , framkvæmdastjóri Nautic.

Skipin eru 81,60 m á lengd og 16 m breið. Framleiðslugeta Kapitan Sokolov verður t.a.m. 1.200 tonn af frosnum afurðum, 334 tonn af fiskimjöli og 95 tonn af niðurlagðri vöru. Frystigetan er 100 tonn á dag í áhöfn verða um 70 manns. Skipin verða með vindur, kæli- og frystibúnaði  frá íslenskum fyrirtækjum í Knarr-samstæðunni, Naust Marine og Frost.

Fréttin birtist fyrst í Fiskifréttum 21. janúar