laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Verðhækkun á þorski

15. maí 2014 kl. 13:15

Þorskur

Verð á sjófrystum hausuðum þorski hækkar vegna meiri eftirspurnar

Hækkandi verð á þorski var eitt aðalumræðuefnið á sjávarútvegssýningunni í Brussel í síðustu viku, að því er fram kemur á vefnum Undercurrent News.

Verð á sjófrystum þorski, hausuðum og slægðum, sem togarar og línubátar veiða hefur hækkað og búist er við frekari verðhækkunum. Ástæður þess eru meðal annars takmarkaðar landanir og gríðarleg eftirspurn frá norska saltfiskiðnaðinum. Engar birgðir af afurðum eru í Noregi þrátt fyrir aukna þorskveiði.

Á fyrstu dögum maímánaðar áttu Norðmenn aðeins eftir að veiða um 36% af þorskkvóta sínum. Strandveiðiflotinn hefur landað mjög miklu af ferskum þorski á fyrri hluta ársins. Eins og venjulega dregur verulega úr framboði þegar sígur á seinni hluta ársins. Þar af leiðandi er gert ráð fyrir að verðið hækki síðar á árinu.

Hausaður heilfrystur línuveiddur þorskur, um 1 til 2 kíló að þyngd, selst nú á 3.600 til 3.700 dollara tonnið CIF til Kína (406.800 til 418.100 ISK). Verðið var 3.300 til 3.400 dollarar í apríl.

Fyrir hausaðan heilfrystan togaraþorsk (stærðin 1 til 2 kíló af rússneskum skipum og 1 til 2,5 kíló af norskum skipum) eru greiddir um 3.000 dollara tonnið CIF til Kína. Í apríl var verðið í kringum 2.900 dollarar fyrir tonnið. 

Fyrir 2,5 til 3 kílóa hausaðan þorsk frá Rússlandi og 2,5 til 4 kílóa þorsk frá Noregi (þ.e.stærðarflokkur sem hafði lækkað í verði niður fyrir minni fisk) fara verð hækkandi og er um 2.850 dollarar á tonnið og hærra, samkvæmt heimildum Undercurrent News.