miðvikudagur, 14. apríl 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Verðið við sársaukamörk

Guðsteinn Bjarnason
31. mars 2021 kl. 07:00

Bæði tíðarfarið og verðið hefur verið óhentugt undanfarið. Mynd/Þorgeir Baldursson

Grásleppuvertíðin fer hægt af stað.

Ríflega tuttugu eru búnir að virkja grásleppuleyfi sín og nokkrir búnir að landa fjórum sinnum. Verðið er þó ekki nema 130 krónur fyrir kílóið en var 330 fyrir tveimur árum.

Grásleppuvertíðin hófst formlega 23. mars. Að sögn Arnar Pálssonar, framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda, hafa veiðarnar farið frekar hægt af stað. Þar spili inn í bæði tíðarfarið og verðið.

„Það er lítill áhugi fyrir þeim verðum sem eru boðin og síðan hefur tíðin verið slæm á þessum veiðisvæðum þar sem er byrjað. En veiðin hjá þeim sem eru byrjaðir er held ég alveg þokkaleg.“

Á þriðjudaginn voru 22 bátar búnir að virkja leyfin og meðalaflinn í róðri var 1,7 tonn. Þeim hefur verið að bjóðast 130 krónur fyrir kílóið af heilli grásleppu, sem er miklu lægra verð en á síðustu árum. Árið 2019 var verðið 330 krónur en árið 2020 var það komið niður í 225 krónur kílóið.

Óvissan töluverð

Óvissan er enn töluverð, bæði hvernig markaðurinn muni þróast þegar á líður og eins hver ráðgjöfin frá Hafrannsóknastofnun verður. Engu að síður eru ríflega tuttugu bátar farnir af stað og þeim mun væntanlega fjölga þegar á líður.

„Þeir sem voru búnir að vitja oftast um voru búnir að landa fjórum sinnum. Nokkrir bátar voru búnir að landa þrisvar.“

Grásleppuveiðar eru kostnaðarsamar þannig að margir hika þegar verðið er þetta lágt. Örn segir að menn geti vart leyft sér að fara af stað nema sjá fram á að hafa einhvern hagnað upp úr því.

„Það eru ákveðin mörk á því hvað hægt er að keyra verðið niður. Þeir segja mér að þetta sé komið niður undir sársaukamörk.“

Heimsfaraldurinn hefur óneitanlega sett strik í reikninginn. Fyrir nokkrum árum opnaðist markaður í Kína fyrir heila frosna grásleppu, en sá markaður lokaðist á síðasta ári og til eru miklar birgðir af frosinni grásleppu sem erfitt verður að losna við fyrr en Kínverjar taka aftur við henni.

Mega skera á sjó

Til að bregðast við þessu er veitt undanþága þetta árið til þess að skera grásleppu úti á sjó og landa einungis hrognunum.

Þann 17. mars gaf ráðuneytið út reglugerð sem heimilar hrognkelsaveiðar á tímabilinu 23. mars til júníloka, nema í Breiðafirði innanverðum þar sem tímabilið er frá 20. maí til 12. ágúst. Hver veiðiréttarhafi má veiða í 25 daga samfellt, og er leyfið bundið við eitt af sjö svæðum.

Ekki er von á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar fyrr en í lok mars og enn óvíst hvort heildardagafjöldinn verði aukinn.

Eins og áður er Fiskistofu gert að stöðva veiðar þegar heildarafla ársins er náð. Þetta gerðist á síðasta ári þegar veiðar voru stöðvaðar frá og með 2. maí, og voru þá margir ekki búnir með tímabilið og jafnvel vart farnir af stað. Undanþága var þó veitt fyrir innanverðan Breiðafjörð þar sem áfram mátti veiða í allt að 15 daga.