laugardagur, 6. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Verðmætari afurðir verða til

Guðjón Guðmundsson
27. nóvember 2019 kl. 12:00

Sturlaugur Haraldsson, framkvæmdastjóri Norebo Evrópu. Mynd/gugu

Hvatakerfi Rússa í hnotskurn.

Sturlaugur Haraldsson, framkvæmdastjóri Norebo í Evrópu, segir að hvatakerfi rússneskra stjórnvalda til rússneskra fyrirtækja að fjárfesta í landvinnslu, nýjum fiskiskipum og öðrum búnaði til að auka virðisaukandi fiskframleiðslu opni enn frekari tækifæri til markaðssóknar fyrir Norebo sem nú þegar stendur traustum fótum á flakamarkaði í Evrópu. Rætt er við Sturlaug í sjávarútvegsritinu Intrafish.

Þar segir hann að Norebo standi sérstaklega vel að vígi fyrir þessar breytingar enda hafi markvisst verið unnið að því innan fyrirtækisins til margra ára að auka verðmæti þorskafurða.

„Norebo stendur framar mörgum fiskframleiðendum í Rússlandi vegna þess að við hófum þessa vegferð fyrir ellefu árum og höfum hægt og bítandi aukið flakaframleiðslu okkar,“ segir Sturlaugur.

Áhersla á innanlandsmarkað

„Ég er þess fullviss að þróunin verði jákvæð,“ segir hann en bendir á að hann vænti þess að á næstu árum leggi rússnesk fyrirtæki aukna áherslu á fryst flök. Rússnesk stjórnvöld hafa þrýst á aukna sölu innanlands og þótt það hafi ekki enn gerst í miklum mæli er þróunin í þá átt. Sturlaugur segir að hjá Norebo sé mikil áhersla lögð á að þróa innanlandsmarkað  en sú vinna sé reyndar rétt að hefjast.

Mikil spurn er eftir bolfiski frá Rússum sem selja megnið af framleiðslunni á erlendum mörkuðum þar sem þeir keppa við aðra framleiðendur sem hafa varið tíma og fjármunum í vörumerkjauppbyggingu, markaðssókn og á verðmætari afurðir. Sturlaugur segir að þessir markaðir hafi mikla getu til að vaxa og að hágæðaafurðir auki heildarneysluna.

„Markaður fyrir hágæða flök er í rauninni óhemjustór. Áskorunin er afhendingaröryggi til neytenda. Þegar við náum fullri stjórn á því eru varla nokkur takmörk fyrir því hvað við getum gert,“ sagði Sturlaugur.

Norebo Group er ein af þremur stærstu útgerðum Rússlands og undir þeirra merkjum eru 16 útgerðarfélög. Það er nú með 10 ný skip í smíðum eftir teikningum Nautic í Pétursborg, sem er hluti af Nautic ehf. á Íslandi. Hvert þessara skipa kostar tæpa 8 milljarða ÍSK.