miðvikudagur, 25. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Verðmætasti aflinn

11. júlí 2019 kl. 15:00

Áhöfn Blængs var fagnað með tertu í morgun. MYND/Smári Geirsson

Verðmæti aflans sem frystitogarinn Blængur NK kom með til Neskaupstaðar í morgun mun vera um hálfur milljarður.

Frystitogari Síldarvinnslunnar, Blængur NK, kom með 1.421 tonna afla til Neskaupstaðar úr Barentshafinu í morgun. Þar af voru 1.290 tonn þorskur. Aflaverðmætið mun hafa verið um 500 milljónir króna, sem er mesta aflaverðmæti austfirsks skips í einni veiðiferð hingað til.

Frá þessu er greint á vef Síldarvinnslunnar hf. 

Tekið var vel á móti áhöfninni í morgun og boðið upp á dýrindis tertu, eins og ekki er óalgengt þar á bæ.

Skipið hélt til veiða frá Neskaupstað hinn 3. júní sl. og hóf veiðar hinn 8. júní. Það var 29 daga á veiðum og var aflinn sem fyrr segir 1.421 tonn upp úr sjó, þar af 1.290 tonn þorskur. Gert er ráð fyrir að skipið haldi á ný til veiða nk. miðvikudag og þá verður fiskað á miðum hér við land.

Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri sagði í samtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar að áhöfnin væri bæði glöð og þreytt eftir veiðiferðina. „Það er ekki annað hægt að segja en að veiðiferðin hafi gengið einstaklega vel. Það var góð veiði frá fyrsta kasti og vinnslan gekk með miklum ágætum frá upphafi til enda. Fiskurinn sem fékkst var líka stór og góður. Við vorum allan tímann að veiðum norður af Múrmansk, 5-20 mílur frá 12 mílna línunni. Lengst af voru íslensku skipin þarna sex talsins og var ákaflega gott samstarf á milli þeirra. Menn voru í góðu sambandi og hjálpuðust að. Síðustu dagana vorum við hins vegar eina íslenska skipið á miðunum. Þessi góða veiði er afskaplega ánægjuleg  en í fyrra gekk ekki svona vel á þessum miðum um þetta leyti árs. Veiðin núna er í reyndinni sú besta í mörg ár á þessum árstíma og við komum því í heimahöfn glaðir og hressir,“ sagði Bjarni Ólafur.