þriðjudagur, 26. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Verðmunur á Íslandi og Noregi verði skýrður

Guðjón Guðmundsson
18. desember 2019 kl. 07:00

Unnsteinn Þráinsson, formaður Félags makrílveiðimanna. Aðsend mynd

Helmingi hærra verð fyrir krókaveiddan makríl.

Unnsteinn Þráinsson, formaður Félags makrílveiðimanna, segir fulla ástæðu til að kanna til hlítar hvað valdi miklum verðmun á makríl sem veiddur er á Íslandsmiðum annars vegar og við Noreg hins vegar. Hann segir ýmislegt geta skýrt verðmismun en það þurfi þá að liggja skýrt fyrir. Unnsteinn segir að krókabátar hafi fengið allt að tvöfalt hærra verð fyrir makrílinn á síðustu makrílvertíð en uppsjávarflotinn fékk fyrir sinn afla.

Samkvæmt samantekt Verðlagsstofu skiptaverðs frá því í ágúst síðastliðnum greiddu norsk fiskvinnslufyrirtæki allt að fjórfalt hærra verð fyrir makríl á síðustu árum miðað við það sem íslensk fyrirtæki greiddu. Norðmenn fengu líka allt að 62% hærra útflutningsverð á makrílflökum árið 2018 og 17% verðmunur var á heilfrystum makríl og hausskornum.

Efasemdir um verðmun

„Það eru efasemdir um þennan mikla verðmun. En það á að vera einfalt mál að finna út úr því eins og tæknin er orðin í rekjanleika og á fleiri sviðum. Sjávarútvegurinn þarf á því að halda að andrúmsloftið verði hreinsað og að allir upplýsingar liggi fyrir,“ segir Unnsteinn.

Hann segir að horfa verði helst til þess að Íslendingar veiða makríl á öðrum tíma en Norðmenn. Gæði hráefnisins sé mun meira að haustlagi en í sumarbyrjun og markaðsstaða Norðamanna er ótvírætt mun sterkari í makríl auk þess sem Rússlandsmarkaði var kippt undan íslenskum útgerðum með verulegum afleiðingum árið 2015. En hvort þessi atriði skýri þennan mikla verðmun liggur hinsvegar ekki fyrir.

„Það fékkst hærra verð fyrir krókaveiddan makríl upp úr sjó. Við fengum nærri tvöfalt hærra verð en uppsjávarskipin. Krókaveiddur makríll er meiri gæðavara, hann lendir aldrei undir pressu og honum er alltaf landað ferskum. Það meðal annars skýrir þennan verðmun,“ segir Unnsteinn.

Sex fyrirtæki á Íslandi hafa verið stærst í kaupum á krókaveiddum makríl.

Troll- og nótaveiddur makríll

Íslensku uppsjávarskipin hafa veitt allan sinn makríl í troll en í Noregi er hefð fyrir því að veiða uppsjávarfisk í nætur. Unnsteinn segir auðvelt að ímynda sér það að þetta hafi áhrif á gæði hráefnisins. Það hvort togað sé í 4-6 tíma eða makríllinn sé tekinn spriklandi ferskur úr nót. Þetta geti einnig skýrt þennan mikla verðmismun milli Íslands og Noregs.

„Ég vil að það verði farið í saumana á þessu og upplýst hvernig málið er vaxið. Þjóðin á heimtingu á því að vita hvort pottur sé brotinn. Það er líka slæmt fyrir sjávarútveginn að liggja undir ásökunum sem á endanum eru ef til vill algjörlega tilhæfulausar. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa útskýrt málið út frá sínum bæjardyrum séð en það hefur ekki dugað til þess að sannfæra þjóðina. Við þurfum bara að sjá tölur á blaði sem sýnir hvernig málið er vaxið,“ segir Unnsteinn.