miðvikudagur, 12. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Verður að svara kalli tímans

12. nóvember 2017 kl. 09:00

Sífellt færist í vöxt að neytendur panta sinn fisk í gegnum vefverslanir - því kalli verður að svara

Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eru í kjörstöðu til að nýta sér netið sem sölutæki fyrir afurðir sínar

Íslenskur sjávarútvegur er að mörgu leyti betur settur en sjávarútvegur í flestum nágrannalöndum okkar til að nýta sér netið sem sölutæki. Við getum boðið nokkuð öruggt framboð allt árið um kring, við erum með alla framleiðslukeðjuna klára - frá skipi og vinnslu til flutninga- og sölukerfis. Verkefnið framundan er að efla ímynd og markaðsvinnu í kringum þorskinn og tengja saman sérfræðinga í netlausnum og sjávarútveginn.

Þetta er ein megin niðurstaða nýrrar greiningar Íslenska sjávarklasans sem fjallar um sölu matvæla á netinu í samhengi við sölu á íslensku sjávarfangi.

Tilefni skrifanna eru þær stórstigu breytingar sem þegar hafa orðið í viðskiptum með matvæli, og samhengi þeirra við tæknivæðingu í íslenskum sjávarútvegi. Allt helst þetta í hendur, því á tímum sjálfvirkni og fullvinnslu er rétt að huga að því hver framtíðin er við sölu afurðanna beint til viðskiptavinarins, hver sem hann er.

Fimmföldun
Í greiningunni segir frá því að ef áætlanir ganga eftir mun strax árið 2025 verði sala matvæla á netinu í Bandaríkjunum orðin 20% af heildarsölu – og hafi fimmfaldast frá því sem nú er. Fjórðungur Bandaríkjamanna kaupir hluta sinna matvæla nú þegar í gegnum netið, en reiknað er með því að sjö af hverjum tíu muni nýta netið til þessarar hversdagslegu iðju innan tíu ára.

Samkeppnin á fiskmörkuðum fer sífellt harðnandi og sjálfgefið að það er mikið í húfi fyrir Íslendinga að okkar helsta söluvara – þorskurinn – verði sýnilegur á nýjum vettvangi viðskipta með fisk. Miklar líkur eru á því að samkeppnisstaða matvæla, og þá fiskmetis, ráðist af því hvernig tekst til við kynningu þessa vöruflokks á netinu, er ályktað í greiningu Sjávarklasans.

Risar ráða
Í greiningunni segir: „Ef skoðað er hvernig þorskur er seldur á netinu þá er nokkuð ljóst að hann á langt í land með að hafa þá stöðu sem hann á skilið. Þorskur er bæði seldur sem dýrafóður og sem frystur og ferskur á netinu. Í nær engum tilfellum, sem Sjávarklasinn hefur skoðað, er upprunalands þorsksins getið ef fiskurinn er innfluttur. Mögulegir viðskiptavinir geta því ekki séð hvaðan fiskurinn kemur. Þarna er engum einum um að kenna en aðal ástæðan er ugglaust sú að mögulegir viðskiptavinir vita lítið um hvaða lönd eru að veiða og vinna þorsk af hæstu gæðum. Þarna hafa Norðmenn þó náð nokkru forskoti í sumum Evrópulöndum með því að kynna norskan uppruna fisks fyrir þarlendum neytendum.“

Á því er hnykkt að sala á netinu byggist á samskiptum við stór og ráðandi netfyrirtæki sem selja matvörur af ýmsu tagi. Þessi fyrirtæki eru kröfuhörð og krefjast mikilla gæða á vöru á góður verði. Það leggja þau mesta áherslu á nema ef væri kröfuna um óbrigðula vöruafhendingu allt árið um kring.

„Þar er staða Íslands afar sterk í samanburði við aðra hvítfiskframleiðendur. Öflug íslensk sölufyrirtæki eða söludeildir stórra sjávarútvegsfyrirtækja gegna því hér áfram lykilhlutverki í að selja íslenska fiskinn til þessara vefverslana,“ segir í greiningunni.

Alibaba
Eins og Fiskifréttir sögðu frá nýlega þá hyggst kínverska netverslunin Alibaba, sem Íslendingar hafa notfært sér í töluverðum mæli undanfarin ár, á næstunni hefja sölu á sjávarafurðum. Tilkynnt var um þetta á ráðstefnu í Bandaríkjunum í júní. Sjávarafurðirnar verða seldar í gegnum Tmall, vefverslun á vegum Alibaba sem einkum beinist að innanlandsmarkaði í Kína. Alibaba ræður yfir dreifingarneti sem gerir seljendum kleift að afhenda vörur sínar samdægurs eða daginn eftir í meira en 1.100 héröðum og umdæmum í Kína.

Kínverski markaðurinn er gríðarstór og þar af leiðandi eftirsóttur fyrir matvælaframleiðendur ekki síður en aðra framleiðendur. Þar búa nærri 1,4 milljarðar manna, um fimmtungur alls mannkyns.

Í greiningunni er fjallað um tækifærin á kínverska markaðnum. Þarlendir vilja í sífellt meira mæli panta vöru í gegnum neitið og koma svo í sérverslunina og taka vöruna með sér heim. Alibaba ætlar að setja á laggirnar fjölda slíkra verslana á næstu árum, og eru stærðirnar undraverðar á íslenskan mælikvarða eða 2.000 slíkar verslanir á 10 ára tímabili. Þar verður höfðað til þeirra neytenda sem hafa mikla kaupgetu; milli- og hátekjufólk sem vill kaupa ferskan eða lifandi fisk.

Á sama tíma hefur lítil áhersla verið lögð á að kynna vörur og vörumerki íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja beint fyrir erlendum neytendum. Þar er mikið verk að vinna, segir í greiningunni en jafnframt, eins og áður hefur verið fjallað á vettvangi Sjávarklasans, kunni að vera mikilvægt fyrir þjóðir við Norður-Atlantshaf að eiga meira samstarf um markaðs- og ímyndarmál þorsksins og annarra afurða hafsins.

Tilbúnar vörur
„Með aukinni tæknivæðingu í íslenskum sjávarútvegi hafa fyrirtækin náð gríðarlegum árangri í fullvinnslu afurða. Enn eru engar þjóðir í heiminum sem geta boðið eins mikla þjónustu við afgreiðslu ferskra gæðaflaka eins og við. Ný tölvutækni býður upp á skurð á flökum sem samræmast kröfum viðskiptavina um stærð og gerð bita. Þetta opnar mikla möguleika fyrir íslenskan sjávarútveg að bjóða alþjóðlegum neytendum upp á tilbúnar vörur beint á netinu,“ segir í greiningu Sjávarklasans.