miðvikudagur, 23. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Verður á Flateyri fram á vor eða lengur

9. febrúar 2020 kl. 10:00

Björgunarskipið Björg heldur úr höfn á Rifi. Mynd/Þröstur Albertsson.

Landsbjörg sendir B/S Björgu vestur.

Björgunarskipið B/S Björg lagði úr höfninni á Rifi áleiðis til Flateyrar á mánudag. Stjórn Slysavarnafélagsins Landsbjargar ákvað fyrir skemmstu að verða við óskum heimamanna á Flateyri og auka öryggi á staðnum með viðveru skipsins þar.

Björginni er ætlað að tryggja Flateyringum örugga leið frá höfninni á Flateyri og inn á Holtsbryggju innarlega í Önundarfirði.

Holtsbryggja endurbyggð

Í kjölfar snjóflóðanna mannskæðu árið 1995 var bryggjan í Holti endurbyggð og þá með það fyrir augum að vera varaleið fyrir Flateyringa til og frá þorpinu ef vegir lokuðust til lengri eða skemmri tíma. Þá datt engum í hug að sú staða gæti komið upp að á Flateyri yrði ekki til tiltækur bátur í slíkar ferðir og hvað þá að þeir myndu flestir eyðileggjast á einni nóttu.

Síðan 1995 hefur Holtsbryggjan nokkru sinnum þurft að sinna hlutverki þessu í neyð og vill Landsbjörg með þessu leggja sitt af mörkum til að tryggja öryggi íbúa Flateyrar.

Björgin, sem smíðuð er árið 1977, hefur verið í höfninni á Rifi verkefnalaus síðan í júní 2019. Ástæða þess er sú að henni var skipt út fyrir yngra samskonar skip á þeim tíma. Það skip heitir einnig Björg en er með skipaskráningarnúmerið 2742. Björg eldri hefur verið til sölu og er í góð ásigkomulagi.

Aukið öryggi

Strax og fréttir bárust af því að þessi möguleiki væri á borðinu fóru félagsmenn Landsbjargar á Rifi að huga að því að gera skipið ferðaklárt. Fylltu þeir alla tanka af olíu og gengu úr skugga um að skipið væri klárt til ferðar til Flateyrar.

Forsætisráðuneytið hefur ákveðið að styrkja Landsbjörgu um hálfa milljón krónur sem rennur í þetta verkefni. Fjármunirnir voru notaðir til að  kaupa siglingartölvu, standa straum af olíukostnaði og fleiri þáttum við þessa framkvæmd svo Björgin yrði fullbúin og undir það búin að sinna verkefnum á Flateyri.

Sjálfboðaliðar Björgunarsveitarinnar Sæbjargar sjá um að manna skipið í þeim verkefnum sem mögulega koma upp. Margir þessara sjálfboðaliða eru með réttindi bæði til vél- og skipstjórnar.

Skipið verður staðsett á Flateyri fram á vorið eða svo lengi sem talin er þörf á því að hafa skipið í höfn þar til að auka öryggi fyrir íbúa staðarins.

Það voru félagsmenn Björgunarsveitarinnar Sæbjargar sem sóttu skipið á Rif.