laugardagur, 4. apríl 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Verður laxadeilu Noregs og Kína skotið til WTO?

22. september 2011 kl. 12:32

Lax

Norski utanríkisráðherrann útilokar ekki að málið verði tekið upp hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni

Norski utanríkisráðherrann, Jonas Gahr Store, hefur lýst því yfir að til greina komi að hann skjóti óopinberum viðskiptaþvingunum Kína á norskan lax til Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), að því er fram kemur í frétt á IntraFish.

Eins og fram hefur komið í Fiskifréttum fullyrða norskir útflytjendur laxaafurða að eftir að friðarverðlaun Nóbels voru afhent kínverskum andófsmanni árið 2010 hafi hægagangur ríkt í tollafgreiðslu í Kína á norskum eldislaxi. Útflutningur á laxi til Kína frá Noregi hafi stórminnkað af þessum sökum á sama tíma og skoskur lax renni greiðlega í gegn. Skotar selji nú lax til Kína sem aldrei fyrr.

,,Bæði Noregur og Kína eru aðilar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni og reglur stofnunarinnar eru skýrar. Viðskipti af þessu tagi eiga að ganga fljótt og hindrunarlaust,“ segir Jonas Gahr Store, utanríkisráðherra Noregs.

Hann segist ekki geta fullyrt að póltíkin ráði för í viðskiptaháttum Kínverja. Hins vegar sé það ljóst að framleiðendur á eldislaxi séu ekki í nokkrum vafa um að þeir hafi verið beittir viðskiptaþvingunum í kjölfar verðlaunaafhendingarinnar. ,,Við getum ekki horft fram hjá þessu viðhorfi greinarinnar og ef nauðsyn krefur munum við taka þetta mál upp hjá WTO. Til þess er WTO að koma í veg fyrir að ólögulegum aðferðum sé beitti í viðskiptum,“ segir Jonas Gahr Store.