mánudagur, 1. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Verkefnasjóður skreppur hratt saman

15. september 2018 kl. 07:00

VS-afla er ætlað að hvetja til þess að komið sé með allan afla að landi. Mynd/Þorgeir Baldursson

Tekjur hafa lækkað um 630 milljónir á ársgrundvelli samanborið við árið 2008

Tekjuáætlun Verkefnasjóðs sjávarútvegsins í nýframkomnu fjármálafrumvarpi ríkisstjórnarinnar lækkar um 331 milljón krónur vegna lægri tekna af svokölluðum VS-afla.

Tekjur sjóðsins af VS-afla hafa dregist mikið saman á liðnum árum en tekjuáætlun fjárlaga hefur ekki tekið tillit til þess og verið óbreytt. Frá 2008 hafa tekjur sjóðsins farið nokkuð stöðugt niður á við sem varð til þess að ekki hefur verið úthlutað úr Samkeppnisdeild sjóðsins síðan 2012.

Munu ekki hækka

Þegar mest var fóru tekjur sjóðsins í 880 milljónir króna en hafa lækkað niður í um 250 milljónir króna frá þeim tíma. Í frumvarpinu segir að ólíklegt sé talið að tekjurnar aukist aftur og því er lagt til að tekjuáætlun fjárlaga verði lækkuð.

VS-afli er sá hluti veiðinnar sem skipstjóra er heimilt að halda til hliðar og reiknast ekki til aflamarks. Það má nema að 5% af lönduðum afla innan fiskveiðiársins í botnfiskstegundum, og 0,5% í uppsjávartegundum. Þessu er ætlað til að hvetja til þess að komið sé með allan afla að landi, hvort sem um er að ræða afla umfram aflamarksstöðu, undirmálsfisk eða skemmdan afla, en 20% af andvirði aflans fer til útgerðar skipsins til að greiða áhöfn laun en 80% í Verkefnasjóð sjávarútvegsins.

Tekjuáætlun Hafrannsóknastofnunar lækkar um 340 milljónir milli ára. Í henni er gert ráð fyrir að styrkir úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins lækki vegna lægri tekna sjóðsins, en stofnunin hefur notið þeirra mjög við fjármögnun ýmissa verkefna í gegnum árin. Þá falla niður tekjur af verkefnum sem stofnunin hefur verið með, m.a. vegna útleigu rannsóknaskipa í tilfallandi verkefni þar sem aukið úthald rannsóknaskipa dregur úr möguleikum á að leigja út skipin.

Rannsóknir og þróun

Í frumvarpinu er fjallað um markmið og aðgerðir er tengjast rannsóknum, þróun og nýsköpun í sjávarútvegi. Undir málaflokkinn falla verkefni Hafrannsóknastofnunar, matvælarannsóknir, fyrrnefndur Verkefnasjóður sjávarútvegsins og framlög til ýmissa samninga og verkefna í sjávarútvegi, svo sem vegna rannsókna.

Stefnt er að því að gerðar verði rannsóknir og unnin úttekt á fýsileika notkunar á ófrjóum eldisfiski eða lokuðum eldisbúnaði, sem hafi það markmið að nota þessar eldisaðferðir í íslensku fiskeldi og setja skorður við notkun á frjóum eldisfisk í eldi. Þessari úttekt skal lokið fyrir 1. desember 2019, þar sem fram koma tillögur um mögulegar aðgerðir í þessa veru.

Á árinu 2019 verður unnið að hönnun og undirbúningi nýs hafrannsóknaskips. Nýtt hafrannsóknaskip kemur til með að efla rannsóknir í þágu lífríkis og auðlinda í hafinu umhverfis Ísland og er þannig liður í því að ná markmiði um sjálfbæra nýtingu fiskistofna. Aðgerðin var ekki í fjármálaáætlun 2019-2023 en er bætt við í ljósi ályktunar Alþingis.

Nýjar aflareglur

Stuðla á að sjálfbærri nýtingu fiskistofna, m.a. með setningu aflareglna á fleiri stofna og þar með hagstæðari sóknarskilyrðum fyrir fiskiskipaflotann. Tillögur að fleiri aflareglum verða unnar á árinu.

Vinna við heildstæða áætlun um rannsóknir og vöktun á vistkerfi hafsins er framhaldið. Yfirlit unnið um núverandi stöðu og gerð áætlun um úrbætur. Stefnt er að því að áætlunin liggi fyrir í ársbyrjun 2019 og vinna hefjist samkvæmt henni.