þriðjudagur, 26. maí 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Verkefnastaða Slippsins á Akureyri viðunandi

5. maí 2020 kl. 08:13

Nýlega lauk stórri viðgerð á togaranum Melkart 5 sem er í eigu rússnesku útgerðarinnar Murman Seafood. Mynd/Slippurinn

Starfsmenn fyrirtækisins hafa, þrátt fyrir dæmalausa tíma, unnið í fyrirliggjandi verkefnum, þar á meðal stórum verkefnum fyrir erlendar útgerðir.

Verkefnastaða Slippsins á Akureyri, þrátt fyrir dæmalausa tíma, hefur verið viðunandi að undanförnu. Starfsmenn fyrirtækisins hafa unnið hörðum höndum í þeim verkefnum sem lágu fyrir og á meðal þeirra eru stór verkefni fyrir erlendar útgerðir.

Á heimasíðu fyrirtækisins segir frá því að snemma á þessu ári lauk stórri slipptöku á frystitogaranum Reval Viking fyrir eistneska útgerðarfyrirtækið Reval Seafood AS. Þar var unnið í stálviðgerð á stefni skipsins auk þess sem nýir toggálgar voru smíðaðir og skipið getur nú dregið fjögur troll. Einnig var unnið að skrúfuviðgerðum, breytingum á rækjulínu á vinnsludekki auk þess sem síður og botn skipsins voru máluð.

Gunnar Tryggvason, verkefnastjóri hjá Slippnum á Akureyri, var ánægður með verkið og segir í fréttinni að það hafi verið krefjandi en tekist vel.

„Starfsmenn Slippsins stóðu sig gríðarlega vel og sú fjölbreytta þjónusta sem við getum boðið gefur okkur ákveðið forskot á aðra og kemur þannig viðskiptavinum okkar til góða. Samstarfið við útgerðina gekk einnig mjög vel sem er ekki síður mikilvægt í svona verkefni.”

Auk þessa lauk nýlega stórri viðgerð á togaranum Melkart 5 sem er í eigu rússnesku útgerðarinnar Murman Seafood. Skipið var almálað og öxuldregið auk þess sem aðalvél var tekin upp og breytingar á vinnsludekki skipsins framkvæmdar. Slippurinn Akureyri og Murman Seafood hafa átt gott samstarf á liðnum árum en auk viðhaldsverkefna á skipum félagsins afhenti Slippurinn vinnslubúnað í nýja fiskvinnslu fyrirtækisins í Rússlandi á síðastliðnu ári.