þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Verkstjórnarfræðsla – Fyrsta 100% fjarnám Íslands

10. september 2015 kl. 11:24

Frá fiskvinnslu HB Granda í Reykjavík.

Kennsla á lotu 2, sem fer ítarlegrar í verkefni og skyldur verkstjóra, hefst þann 17. september

Verkstjórasamband Íslands, Samtök atvinnulífsins ásamt Nýsköpunarmiðstöð Íslands hafa frá árinu 2011 unnið að gerð námsefnis sem hægt er að kenna sem 100% fjarnám. Þetta nám er sniðið að öllum stjórnendum sem og millistjórnendum. Svona 100% fjarnám hefur aldrei verið kennt á Íslandi fyrr en nú og er algjör nýsköpun á þessum vettvangi. Í vor var fyrsta lotan kennd en hún snýr að innra hlutverki verkstjóra sem hluta liðsheildar. Kennsla á lotu 2, sem fer ítarlegrar í verkefni og skyldur verkstjóra, hefst þann 17. september 2015 og stendur skráning nú yfir. Sjá nánar um námið HÉR.

Kennslan fer alfarið fram á netinu og hafa Gylfi Einarsson verkefnisstjóri og Kristján Óskarsson starfsmaður hjá Nýsköpunarmiðstöð í raun unnið brautryðjandastarf við „hönnun“ fjarnáms hér á landi.

Frásagnir nemenda benda eindregið til þess að vel sé að verki staðið. Jón Magnús Guðmundsson, verkstjóri HB Granda, segir námskeiðið draga hlutverk hans sem millistjórnanda vel fram og hvernig eigi að hafa góð og árangursrík samskipti við samstarfsfólk. Hann segir lotu eitt einnig hafa styrkt stöðu sína í samskiptum við jafnt yfirmenn sem undirmenn.

„Það sem stóð uppúr síðustu lotu sem fjallaði um verkstjórann sjálfan var einnig það að þó námið fari fram á netinu þá er það mjög hjálplegur vettvangur fyrir verkstjóra til að taka samtal við aðra og skiptast á skoðunum við verkstjóra í sjávarútvegi sem og öðrum greinum sem eru í svipuðum sporum og maður sjálfur,“ segir Jón Magnús.

Valdimar Örn Matthíasson, framleiðslustjóri hjá Toppfisk, fór einnig í gegnum lotu eitt síðastliðið vor.

„Ég hafði ekki setið á skólabekk lengi og því kom það mér virkilega á óvart hversu fljótt ég náði tökum á námsefninu sem kennt var í lotu 1. Ástæðan er helst sú að fyrirlestrar og lesefni er vandað, hnitmiðað og vel framsett. Námsefnið er spennandi og höfðar til þeirra sem vilja bæta sig sem stjórnanda, og ná árangri í starfi. Skemmtilegast fannst mér upplýsingatæknin, mannlegi þátturinn og hlutverk mitt sem millistjórnandi,“ segir Valdimar Örn.