laugardagur, 15. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Verndun viðkvæmra vistkerfa í NA-Atlantshafi

4. júlí 2008 kl. 10:35

Á aukaaðalfundi NA-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC), sem fram fór í Lundúnum dagana 1.-2. júlí sl., náðist samkomulag um stjórnunarráðstafanir varðandi botnfiskveiðar.

Þeim er ætlað að styðja við frekari verndun viðkvæmra vistkerfa á úthafinu á samningssvæði NEAFC og taka þær gildi 1. janúar 2009.

Þá er með þessum ráðstöfunum komið að fullu til móts við ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna sem tekur til verndunar viðkvæmra vistkerfa hafsins á úthafinu.

Hinar nýju stjórnunarráðstafanir fela það meðal annars í sér að allar botnfiskveiðar sl. 20 ára á samningssvæði NEAFC verða kortlagðar.

Þar sem botnfiskveiðar hafa ekki áður átt sér stað er einungis heimilt að stunda tilraunaveiðar sem fylgja ákveðnum skilyrðum s.s. um eftirlit og töku sýna.

Á grunni þeirra upplýsinga sem fást við slíkar veiðar, á svæðum þar sem botnfiskveiðar hafa ekki verið stundaðar áður, er ákveðið hvort botnfiskveiðar á nýju veiðisvæði verða leyfðar eða bannaðar. Þá taka aðildarríkin á sig þá skyldu að skip þeirra stöðvi veiðar tafarlaust komi í ljós að veiðarnar raski viðkvæmum vistkerfum á hafsbotni.