sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veröldin neðansjávar

Guðjón Guðmundsson
10. júní 2018 kl. 15:00

Erlendur Guðmundsson kafari og ljósmyndari í fullum klæðum.

Erlendur Guðmundsson kafari í návígi við sjávarlífverurnar

Í djúpum hafsins er ævintýraheimur sem Erlendur Guðmundsson kafari hefur verið iðinn við að skrá með myndum. Hann hefur verið í návígi við sjávarlífverur af margvíslegu tagi við strendur Íslands og segir lífríkið og umhverfið fjölbreyttara hér við land en víðast annars staðar. Árið 1991 fann Erlendur flak af elsta skipi sem fundist hefur við Íslandsstrendur.

Erlendur byrjaði að kafa 1985 en lærði atvinnuköfun í Fort Williams í Skotlandi 1994 og hefur verið að kafa alla tíð síðan. Köfunin sem hann lærði er með aðfluttu lofti með réttindi niður að 30 metra dýpi. Köfunin fer fram með hjálm og loftinu er stýrt til kafarans ofansjávar. Þessa aðferð nýtir hann sér mest við vinnu við bryggjuþil. Hluti af verkefnum hans er að til dæmis að sjóða í bryggjuþil neðansjávar og steypa upp í þau ef götin eru stór. Erlendur segir að fæstir kafarar hafi þó viðurværi sitt að öllu leyti af köfun og stunda flestir önnur störf samhliða henni.

Erlendur rekur fyrirtækið Neðansjávar ehf. Helstu verkkauparnir eru hafnirnar fyrir norðan, Slippurinn á Akureyri og útgerðir. Hjá útgerðunum felast verkefnin gjarnan í því að leysa veiðarfæri úr skrúfum en Erlendur segir að með tilkomu stærri og öflugri skipa hafi dregið úr þessum verkefnum.

Ríkulegt smádýralíf við Hjalteyri

Þegar Erlendur er ekki í vinnunni sinnir hann áhugamáli sínu sem er neðansjávarljósmyndun og þar hefur hann öðlast mikla færni eins og sjá má af myndasafni hans. Hann notar Nikon D800 36,6 megapixla myndavél með alls kyns sérbúnaði til myndatöku neðansjávar. Myndasafnið lýsir ævintýraheimi sem flestum er hulinn. Myndirnar eru aðgengilegar til skoðunar á www.erlendurg.photoshelter.com.

„Ég kafa mikið hérna í Eyjafirðinum og einnig í Siglufirði. Ég hef svo köfunarbúnað  með mér þegar við förum á rútinn um landið á sumrin ég og konan mín. Ég reyni að kafa á sem flestum stöðum.“

Hann segir lífríkið mjög breytilegt eftir stöðum. Hægt sé að ganga að ríkulegu smádýralífi við Hjalteyri. Þegar rökkva tekur sjáist margar tegundir fiska, skeldýra og ljósáta sem ekki sjáist á daginn. Áður en hann kafar í þeim tilgangi að taka myndir þarf hann fyrst að hafa ákveðið hvort hann ætli að taka nær- eða víðmyndir því ekki gefst tækifæri til að skipta um búnað í kafi. Sumar fyrirsæturnar eru ekki nema 2-3 millimetrar að stærð.

Mjaltastúlkan og Sykurskipið

Erlendur hefur töluvert einnig kafað að skipsflökum í kringum Ísland. Hann fann til að mynda elsta skipsflak við Ísland við Flatey á Breiðafirði árið 1991. Þetta er hollenska kaupfarið Melckmeyt sem sökk þar árið 1659. Danskur kaupmaður að nafni Jonas Trellund tók kaupfarið á leigu til þess að stunda viðskipti við Íslendinga.

„Það er ekki mikið eftir af skipinu en önnur síða þess er þó heilleg. Þegar við fundum skipið tókum við talsvert af keramiki úr því og afhentum Þjóðminjasafninu sem við vorum í samstarfi við.“

Það var líka Erlendur í félagi við annan kafara sem fundu Sykurskipið svonefnda. Þar er vísað til finnska flutningaskipsins Wirta sem strandaði á Leiruboða í Skerjafirði í janúar 1941. Skipið var á leið frá Bandaríkjunum til Finnlands drekkhlaðið sykri en þurfti að koma við í Reykjavík vegna bilunar. Skipið lenti í ógöngum á Skerjafirði vegna dimmviðris og kolareyks sem grúfði yfir borginni og sökk.

Allir um borð björguðust en stærstur hluti farmsins lenti í sjónum. Flakið er  laskað en þó má til dæmis sjá vélarhúsið og skrúfuna. Í kringum flakið er urmull fiska af ýmsu tagi.