laugardagur, 28. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veruleg verðmæti skolast burt með frárennslisvatninu

3. júní 2008 kl. 10:13

Það hefur öllum verið ljóst að töluvert af hráefni tapast frá fiskvinnslunum út í umhverfið með vatninu sem notað er á vinnsluvélarnar.

Þarna geta verið töluverð verðmæti á ferð og einnig er það afar neikvætt að henda þessu próteini út í umhverfið. Unnin hafa verið nokkur verkefni, studd af AVSsjóðnum, sem hafa haft það að markmiði að nýta betur hráefnið sem kemur til vinnslu.

Brim hf. hefur, í samvinnu við Matís ohf., unnið að því að þróa feril til að safna fiskholdi sem kemur frá vinnslulínum í bolfiski. Með tiltölulega einföldum búnaði má ná stórum hluta af því fiskholdi sem annars tapast með frárennslisvatninu. Próteinið sem safnast má síðan nota í afurðir til manneldis.

960 tonn hráefnis tapast árlega

Ef magn bolfiskafurða allra vinnslustöðva er um 60 þús. tonn á ári, má gróflega áætla að um 960 tonn af þurrefni tapist árlega, sem væri að mestu leyti prótein. Þetta eru um 1,6% af þurrefnismagni afurða.

Í grundvallaratriðum byggist ferillinn á söfnun á fiskmassa eftir kornastærð og með því móti má ná þremur til fjórum flokkum af fiskholdi sem eru mismunandi að útliti, gæðum og eiginleikum. Með þeim ferli sem þróaður var í verkefninu tókst að ná um 25% af öllu þurrefni úr frárennsli frá flökunarvél.

Lagt var mat á arðsemi þess að koma upp búnaði til söfnunar á fiskholdinu og í ljós kom að búnaðurinn gæti borgað sig upp á einu til fjórum árum, m.v. söfnun frá einni flökunarvél (hráefnismagn 4 tonn/klst.), eftir því hvort afurðin væri unnin próteinblanda eða marningur.

Annar afrakstur verkefnisins er umhverfisvænni framleiðsluhættir þar sem minna af lífrænu efni er skilað út í umhverfið, sem er í samræmi við auknar kröfur um hreinni framleiðslutækni.

Verkefnið var styrkt af AVSsjóðnum og Tækniþróunarsjóði og fyrirtækin sem komu að þessu verkefni voru Brim hf., FISK Seafood, Matís ohf. og Iceprótein ehf. Nánar er fjallað um niðurstöðurnar á vef Matís (www. matis.is).