sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vestmannaeyjabær kaupir Portland VE

30. maí 2013 kl. 15:16

Portland VE. (Mynd: Guðm. St. Valdimarsson)

Neytti forkaupsréttar til þess að tryggja að aflaheimildirnar héldust í bænum.

Bæjarráð Vestmannaeyja hefur ákveðið að neyta forkaupsréttar síns að dragnótaskipinu Portlandi VE-97, ásamt aflahlutdeild, veiðarfærum og öðru því sem skipinu fylgir. Þetta er gert til að tryggja að skipið verði áfram gert út frá Vestmannaeyjum, að því er fram kemur á fréttavef RÚV.

Núverandi eigandi Portlands hafði samið um sölu skipsins en lögum samkvæmt eiga sveitarfélög forkaupsrétt, séu skip seld út fyrir sveitarfélagið.

„Í lögum um stjórn fiskveiða er sveitarfélögum áskilinn sá réttur að ganga inn í kaup á bátum og kvóta þegar þau eru seld úr byggðarlaginu. Það er til að tryggja það að aflaheimildir séu ekki að færast á milli þegar enn er jafn arðbært að gera út í viðkomandi sveitarfélagi,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. „Við höfum kannað áhuga útgerða í Vestmannaeyjum til að ganga inn í þessi kaup og finnum fyrir honum. Við hyggjumst með þessu tryggja að þessi verðmæti fari ekki úr sveitarfélaginu og að þetta fólk missi þá ekki störfin og tækifærin.“