mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vettvangur sagna og fróðleiks

Guðjón Guðmundsson
22. janúar 2019 kl. 07:00

Hilmar Snorrason, einn forsprakka Félags skipa- og bátaáhugamanna. MYND/GÍGJA DÖGG EINARSDÓTTIR

Stofnfélagar voru nálægt 200 talsins í Félagi skipa- og bátaáhugamanna.

 Félag skipa- og bátaáhugamanna var stofnað árið 2013. Í félaginu eru um nú um 290 manns og haldnir eru fundir fyrsta þriðjudag hvers mánaðar í sal Sjóminjasafns Reykjavíkur á Grandagarði. Félagsmenn eiga sameiginlegan áhuga á sögu nýrra og gamalla skipa og tengjast flestir sjónum á einn eða annan hátt.

Forsprakki félagsins er Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna. „Ég hafði lengi látið mig dreyma um þetta. Ég setti færslu á Facebook hvort einhverjir hefðu kannski áhuga á því að stofna til slíks félagsskapar og það var eins og við manninn mælt að það fór allt á hvolf. Stofnfélagar voru nálægt 200 talsins. Hugmyndin var alltaf sú að menn yrðu fengnir til þess að halda erindi um sín hjartans mál og skapa vettvang til þess að menn gætu hist og spjallað,“ segir Hilmar.

Hilmar er mikill áhugamaður um sögu skipa og hefur skrifað þrjár bækur um sögu kaupskipa, þ.e. sögu 75 ára afmælissögu skipa Eimskipafélagsins, 80 ára afmælissögu Skipaútgerðar ríkisins og 100 ára skipasögu Eimskipafélagsins sem kom út árið 2014. Hann var lengi  skipstjóri á kaupskipum og starfaði sem slíkur hjá Skipaútgerð ríkisins þegar hann tók við sem skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna 1991.

Menn eiga sín föstu sæti

Í fyrstu voru haldnir fundir í félaginu frá því í september og fram í maí að undanskildum desember en þá féll fundur jafnan niður. Áhuginn er það mikill að nú er líka fundað í desember. Á fundunum eiga menn jafnvel sín föstu sæti ekki ólíkt því sem tíðkaðist í messanum í skipunum. Félagið leigir salinn af Sjóminjasafninu og segir Hilmar fundina eiga góða samleið með safninu. Eftir fundi heldur spjallið áfram á veitingastaðnum Messanum sem er í húsakynnum safnsins og er oft setið að kaffidrykkju og sagðar sögur af sjónum langt fram eftir kvöldi.

Félagsgjöld eru 2.000 krónur á ári sem hefur nægt til þess að standa straum af kostnaði vegna salarleigu og kaupa á nauðsynlegustu tækjum. Á fyrsta fundi í janúar hélt Einar Ásgeirsson skipstjóri erindi um kolaskip. Hann kannaðist við einn áheyranda í salnum og spurði hann hvort hann hefði ekki örugglega verið kolamokari á skipi á sínum tíma og sá játti því. Þannig ná kynslóðirnar líka saman á fundunum og fróðleikur fyrri tími, umfjallanir um gengna sjómenn ekki síður en nýjungar í skipasmíðum eða tæknimálum ber á góma.

Nýsmíðar í Kína

Margir félagsmanna í Félagi skipa- og bátaáhugamanna búa úti á landi og segir Hilmar að félagið hafi verið að leita leiða til þess að þjónusta þá betur með fjarfundarbúnaði og hefur í því skyni verið keypt sérstök myndavél til þeirra nota. Einnig er tæknilegur möguleiki á því að koma fundunum á framfæri við sjómenn úti á sjó sem eru í internetsambandi.

Á næsta fundi verður sagt frá smíði tveggja skipa í Kína, þ.e. Páli Pálssyni og Breka. Framsögumaður verður Finnur Kristjánsson sem hafði eftirlit með smíðinni..