miðvikudagur, 14. apríl 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Við eigum að vera í fararbroddi

Guðsteinn Bjarnason
3. apríl 2021 kl. 09:00

Gréta María Grétarsdóttir, nýr framkvæmdastjóri nýsköpunar, samfélagsábyrgðar og fjárfestatengsla hjá Brim hf. MYND/Gígja Einarsdóttir

Gréta María Grétarsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Krónunnar, gekk nýverið til liðs við Brim hf. Þar er hún framkvæmdastjóri nýsköpunar, samfélagsábyrgðar og fjárfestatengsla og segir verkefnin vera óþrjótandi.

Gréta hefur víða komið við í atvinnulífinu en segir að nú þegar hún er kominn inn í sjávarútveginn líði sér hálfpartinn eins og hún sé komin heim.

„Ég ólst upp á Flateyri og þar er mikil nálægð við sjóinn. Allt snerist um fiskinn, þannig að maður hefur alltaf haft áhuga á þessum geira. Ég held að það sé ekki síst þessi nálægð við veiðar og vinnslu í fortíðinni sem leiðir mann hingað inn.“

Hún var um árabil framkvæmdastjóri Krónunnar, lagði þar mikla áherslu á samfélagsábyrgð og lét ekki sitja við orðin tóm. Viðskiptavinir tóku eftir breytingum þegar til dæmis hætt var að bjóða upp á plastpoka, sælgæti varð minna áberandi og ávöxtum og grænmeti gert hærra undir höfði.

Hjá Brim er hún tekin við sem framkvæmdastjóri nýsköpunar, samfélagsábyrgðar og fjárfestatengsla og segir áherslur fyrirtækisins ríma vel við það sem hún var að fást við hjá Krónunni.

„Hér er búið að vinna rosalega flotta hluti í umhverfismálum og það er kannski það sem mér finnst spennandi. Þegar maður sér að þetta er vegferðin sem stjórnendur og fyrirtækið er á, þá veit maður að maður þarf ekki að byrja á að berjast fyrir tilverurétti umhverfismála eða samfélagsábyrgðar,“ segir hún. „Brim er mjög öflugt fyrirtæki sem hefur verið leiðandi í samfélagsábyrgð og við ætlum að halda áfram á þeirri vegferð,“ segir hún.

Stærsta áskorunin

Stærsta áskorunin í sjávarútveginum varðandi umhverfismálin segir hún að séu orkuskiptin sem framundan eru. Fyrirsjáanlegt sé að skipta þurfi út jarðefnaeldsneyti fyrir umhverfisvænni orkugjafa, en það verði hreint enginn hægðarleikur.

„Það mun koma að því að fiskiskip verði með umhverfisvænni orkugjafa en tæknin er ekki alveg komin þangað þannig að það sé nokkuð sem við sjáum alveg í sjónmáli strax. Þá er að skoða hvað annað við getum gert til þess að draga úr losun. Þar eru stærstu verkefnin sem eru framundan hjá okkur“.

„Þetta er aldrei búið en við erum alltaf að taka einhver skref. Þannig að maður er alltaf að tryggja að við séum á réttri vegferð, að við séum alltaf að horfa til þess hvernig við getum lágmarkað áhrifin sem við höfum á umhverfið.“

Gréta segir alltaf eitthvað í gangi hjá Brim, verkefnin séu óþrjótandi. Nýbúið er að setja upp nýja vinnslu í fyrirtækinu og mikil endurnýjun hefur verið í skipum á síðustu árum.

„Hjá Brim er mikið af öflugu fólki sem hefur gríðarlega reynslu í greininni. Við ætlum að halda ótrauð áfram og leggjum áherslu á að starfa í sátt við samfélagið og umhverfið. Við viljum tryggja að það sé hluti af allri starfsemi okkar, hvort sem er á veiðum eða í vinnslu eða í sölu, að það séu allir að stefna í sömu átt. Þetta er gríðarlega mikilvægt, að við séum að starfa í sátt við samfélagið og umhverfið.

Sjávarútvegsfyrirtækin hafa síðustu árin verið stórtæk í fjárfestingum. Aukin tækni og sjálfvirkni hafa orðið til þess að vélar taka við erfiðum og einhæfum störfum, en Gréta leggur áherslu á að störfin séu ekkert að hverfa heldur breytast.

„Þetta kallar á öðru vísi hæfni en störfin verða áfram til staðar og ég held að það sé sama í hvaða geira það er. Með fleiri vélum þarf fleiri umsjónarmenn véla, með meiri gögnum þarf fleira fólk sem þekkir gögn og kann að fara með þau. Störfin verða því enn til staðar en kalla á aðra hæfni.”

Hún segir að ennþá geti menn engan veginn séð fyrir endann á þessari þróun.

„Það er nóg framundan. Við erum hvergi nærri búin, og það er líka það skemmtilega við þetta. Hraðinn er mikill og það er mikið að gerast. Ég held að við þurfum öll, samfélagið líka, að átta okkur á því hvað sjávarútvegurinn er öflug grein. Þetta skiptir okkur öll máli því virðiskeðja sjávarútvegsins nær um allt samfélagið.”

Álitlegur kostur

Meðal þeirra verkefna sem Gréta heldur utan um hjá Brimi eru fjárfestingatengsl, og spurð hvað í þeim felist segir hún: „Eitt er að almenningur skilji betur um hvað sjávarútvegur snýst. Ég held að við sem þjóð höfum aðeins fjarlægst uppruna okkar. Það eru fleiri sem búa núna í kringum höfuðborgarsvæðið og fleiri sem hafa aldrei komið inn í fiskvinnslu eða um borð í togara, mikið hærra hlutfall en áður fyrr. En fjárfestatengslin snúast líka um að eiga gott samtal við aðila á markaði og útskýra fyrir hvað við stöndum og hvert við erum að stefna, og af hverjum við erum álitlegur fjárfestingakostur. Greinar eru misjafnar og það er misjafnt hvaða fjárfestingar verið er að fara í. Sjávarútvegurinn er allt öðru vísi en smásölugeirinn eða bankageirinn. Þannig að hluti af þessu er að útskýra hvernig við erum öðru vísi en aðrar greinar.”

Gréta segir að þær miklu fjárfestingar sem sjávarútvegurinn hefur ráðist í á síðustu árum skila sér, ekki bara í breyttum vinnubrögðum og betri meðferð á aflanum, heldur til lengri tíma einnig fjárhagslega. Fjárfestar þurfi að hafa í huga að í sjávarútveginum þurfi stundum að bíða eftir að ávinningurinn sjáist enda um auðlind að ræða sem við ætlum að tryggja að verði nýtt á sjálfbæran hátt til framtíðar.

„Náttúran er óútreiknanleg. Það getur tekur misjafnan tíma að veiða aflann bæði er misjafnt hversu langt þarf að fara til að sækja aflann og síðan getur oft tekið sinn tíma að veiða fiskinn. Þar getur veðrið haft mikil áhrif og oft þarf að liggja í vari. Ég held að það geri sér ekki allir grein fyrir því hversu mikið þarf að hafa fyrir aflanum. Þú ferð ekki bara út á sjó, togar í klukkutíma og trollið er fullt af fiski. Ástand fiskistofnanna er mikilvægt og síðan hafa verið miklar framfarir í tækninni. Sem nýlegt dæmi þá var þriðja togvindan sett í Akurey og Viðey, þannig að skipin geta dregið tvö troll. Með því eykst veiðigetan og olíunotkun minnkar á hvert kíló veidds afla. Auk þess er ekki sami þrýstingur í trollinu, þannig að afurðin verður betri. Þarna smellur þetta allt saman aukin skilvirkni og betra fyrir umhverfið, þetta er dæmi um verkefni sem skilar rekstrarlegri hagkvæmni, áhrif starfseminnar á umhverið minnkar og afurðin verður um leið betri.”

Ímynd hreinleikans

Sjávarútvegurinn hefur vissulega átt í ákveðinni ímyndarbaráttu meðal þjóðarinnar en Gréta segir marga ekki átta sig á því hvað verið er að vinna frábært starf í sjávarútvegi.

„Ímyndin okkar er hreinleiki og að fiskurinn sé ferskur og það þarf að skila sér alla leið til þeirra sem borða fiskinn. Við eigum að sjálfsögðu að vera í fararbroddi í því að veiða og vinna fisk á sjálfbæran hátt og á sama tíma að skapa verðmæti fyrir samfélagið. Okkar samkeppnisforskot er hversu nálægt við erum náttúrunni og hversu góða og hreina ímynd Ísland hefur ásamt því að stunda sjálfbærar veiðar. Það á að vera efst í huga þeirra sem velja að kaupa íslenskan fisk fyrir utan það hversu frábæran afurðin er.”

Lykillinn að þessu öllu sé að horft sé á það sem næst fram með þeim fjárfestingum sem ráðist er í. Sem dæmi má nefna endurnýjun á vinnslu Brims við Norðurgarð í Reykjavík.

„Með endurnýjun nást fram margir þættir sem bæði skila minni umhverfisáhrifum og betri nýtingu á afurðinni. Það er þá verið að horfa á að minnka orkunotkun, minnka vatnsnotkun, minnka þau efni sem þarf til að þrífa, og svo auðvitað miklu betri meðferð á aflanum og betri hitastýring og annað slíkt. Þetta allt skiptir máli í því að vinna vörur sem standast samanburð við samkeppnina frá öðrum þjóðum sem eru að veiða á sömu slóðum og við.”

Vilja vera fyrsti kostur

Tækifærin í vöruþróun segir hún liggja víða á þessum tímum mikilla breytinga.

„Við viljum vera fyrsti kostur þegar aðilar eru að leita sér að samstarfsaðila í vöruþróun eða nýsköpun sem tengist sjávarútvegi. Þá viljum við eiga samtalið við þá og við getum einnig hjálpað til að tengja saman réttu aðilan eigi það við. Það er einnig áhugavert að fylgjast með þróuninni og sjá hvernig samfélagsmynstrið breytist og þar með hegðun neytenda og sjá hvort að þar liggi tækifæri varðandi vöruþróun, hvort sem er að vinna afurðir lengra eða á annan hátt.”

Hvað fiskveiðistjórnarkerfið íslenska varðar þá segir hún að það hafi svo sannarlega orðið okkur til góðs.

„Við höfum verið rosalega lánsöm að við séum að stunda sjálfbærar veiðar. Það er grunnurinn inn í framtíðina, að ganga vel um auðlindina. Ég hef oft verið að hugsa að ef það hefði ekki verið sett á fiskveiðistjórnun þá værum við kannski ekkert hérna í dag að tala saman."

Með allar upplýsingar í hendinni

Hún segir tækniþróunina líka eiga sinn þátt í því að neytendur eru orðnir miklu upplýstari.

„Þegar fólk tekur ákvörðun um það hvað það ætlar að borða, þá er það með allar upplýsingar í hendinni, í snjalltækinu sínu. Viðskiptavinirnir og neytendurnir eru að breytast. Þeir eru orðnir miklu upplýstari og miklu kröfuharðari. Þú getur ekki leyft þér að slaka á og gefa einhvern afslátt á umhverfismálum því viðskiptavinurinn mun refsa þér. Þeir eru þá ekki bara að taka ákvörðun út frá verði og gæðum heldur líka út frá því hvernig farið er með auðlindina, þannig að þau velja að eiga viðskipti við þá sem ganga vel um auðlindina.”

Rekjanleiki matvæla sé ekki aðeins mikilvægur í sjávarútvegi heldur alls staðar í matvælaframleiðslu, en tæknin sé óðum að leiða til þess „að þú munt vita upp á dag hvar fiskurinn er veiddur. Þetta er orðið svo tæknivætt og bara spurning um hvenær þetta verður komið í almenna notkun. Ég held að fólki sem hefur ekki komið um borð í skipin okkar bregði þegar það sér allar framfarirnar sem hafa orðið.”

  • Gréta hefur víða komið við í atvinnulífinu, hefur starfað í bankageiranum, smásölugeiranum og er nú komin í sjávarútveginn. MYND/Gígja Einarsdóttir

Eitt af fyrstu verkefnum Grétu hjá Brim var að taka þátt í að skrifa Samfélagsskýrslu fyrirtækisins, en þetta er í fjórða skipti sem Brim gefur út samfélagsskýrslu. Gréta segir að það séu ekkert mörg fyrirtæki sem eru búin að gera það.

„Brim hefur verið algerlega leiðandi í að greina umhverfisáhrif sín. Mikið hefur verið lagt upp úr því að greina alla starfsemina og hvernig fótsporið okkar myndast. Við erum alltaf að fá betri og betri yfirsýn og ná utan um meira af virðiskeðjunni. Þetta er verkefni sem við munum halda áfram með en mikilvægt er að gera sér grein fyrir því til að geta tekið upplýsta ákvörðun um þau verkefni sem ráðast á í. Þá er einnig hægt að meta hverju verkefnin skila. Í dag er það þannig að notkun olíu við veiðar er sá þáttu sem hefur mest áhrif á umhverfið. Við viljum gera betur og berum virðingum fyrir umhverfinu og auðlindinni og þurfum því að leita stöðugt leiða til að lágmarka áhrif starfseminnar á umhverfið.“

Fjölbreyttur bakgrunnur

Sjálf hefur Gréta komið víða við í atvinnulífinu. Hún er verkfræðingur, hefur starfað í bankageiranum og vakti athygli fyrir samfélagsáherslur sínar í Krónunni.

„Þetta er minn bakgrunnur. Maður er búinn að vera í ólíkum geirum, var í bankageiranum, svo í smásölunni og nú í sjávarútveginum. Það mikilvægasta er að taka með sér lærdóminn á hverjum stað og nýta sér það í næsta starfi. Ég er verkfræðingur og hugsa þetta þannig að maður er með kerfi og spyr alltaf hvernig maður ætlar að ná sem mestu út úr kerfinu, hvað getur maður gert til að ná betri árangri? Það viltu gera með tilliti til verðmætanna sem þú ert að skapa, með tilliti til umhverfisins og með tilliti til samfélagslegu þáttanna.“

Hún segir það litlu skipta hvort starfað er í bankageiranum, smásölunni eða sjávarútveginum. Í sjálfu sér sé er alltaf verið að vinna að sömu hlutum.

„Þú ert alltaf með flott fólk með þér, og það snýst líka um að virkja fólkið. Hérna er svakalega öflugt fólk og þegar allir leggjast á eitt þá nærðu árangri. Það er eins alls staðar. Ég segi alltaf að þegar fólk fær að vinna með sína styrkleika, þá nærðu frábærum árangri hvar sem þú ert.”