þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

„Við verðum að lúta náttúrunni“

Svavar Hávarðsson
7. febrúar 2019 kl. 08:30

Humarafli tvöfaldaðist frá árinu 2004 til ársins 2010 þegar hann náði 2.500 tonnum. Síðan hefur aflinn minnkað og veiðin árið 2018 er sá minnsti frá upphafi veiða árið 1957. Aðsend mynd

Ef fer sem horfir verður humarveiði við Ísland á þessu ári aðeins fimmtungur þeirra aflaheimilda sem voru í gildi fyrir síðustu vertíð. Stofninn er í sögulegu lágmarki. Vond tíðindi fyrir þau fyrirtæki sem hafa sérhæft sig í humarveiðum og vinnslu.

Ef ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um humarafla ársins 2019 verður fylgt þá verður humarveiði við Ísland á þessu ári aðeins fimmtungur þeirra aflaheimilda sem voru í gildi fyrir síðustu vertíð. Til að minnka álag á illa stæðan humarstofn ráðleggur Hafrannsóknastofnun jafnframt að veiðar verði bannaðar á afmörkuðum svæðum.

Humarveiði og vinnsla við Ísland eru að langstærstum hluta á höndum þriggja fyrirtækja. Þau eru Skinney-Þinganes á Hornafirði, Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum og Rammi í Þorlákshöfn. Skinney-Þinganes með 37% humarveiðikvótans. Rammi hf. með 27% kvótans og Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum með samtals með tæplega 19% kvótans.

Þegar þessar tölur eru skoðaðar sést hvað um er að tefla með tilliti til ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar. Skinney-Þinganes var með þrjú skip á humarveiðum árið 2018, sem veiddu samtals 333 tonn. Það voru skipin Skinney SF, Þórir SF og Þinganes ÁR. Má sjá að þrátt fyrir að veiðar hafi gengið illa, og kvótinn sem gefinn var út fyrir vertíðina hafi ekki náðst, þá var veiði skipa fyrirtækisins drjúgt yfir þeim heildarkvóta sem nú er ráðlagður, svo munar tæpum 100 tonnum. Þá var Rammi var með tvö skip að veiðum 2018, sem lönduðu samtals 207 tonnum, en það voru Fróði II ÁR og Jón á Hofi ÁR. Vinnslustöðin var með tvö skip á þessum veiðum sem veiddu 161 tonn, bátanna Brynjólf VE og Drangavík VE.

Gangi ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar eftir mun Skinney-Þinganes fá 87 tonn í stað 425 tonna, miðað við kvóta síðasta árs. Kvóti Ramma færi úr 310 tonnum í 63 tonn og Vinnslustöðin í Eyjum hefði þá úr 45 tonna kvóta að vinna í stað 219 tonnum.

Tökum enga sénsa

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, segir að í augnablikinu sé töluverð óvissa í kringum komandi vertíð – ekki síst hvort leyfi verður gefið til að veiða það sem eftir varð af kvóta síðustu vertíðar til viðbótar við þau 235 tonn sem leyfa á veiðar á þetta árið.

„Þetta hefur mikil áhrif, bæði í fyrirtækjunum og samfélögunum. En við ráðum ekki við náttúruna hvað þetta varðar. Við verðum bara að lúta henni og vera skynsöm. Við erum ekki að fara að taka sénsa á að veiða niður humar,“ segir Binni.

Hann segist velta því fyrir sér hvort nálgun Hafrannsóknastofnunar sé rétt, hvort ekki hefði verið skynsamlegra að skipta kvótanum á milli veiðisvæða.

„Við vitum að ef það er góð veiði þá fara allir þangað. Þannig að ég hefði heldur hallast að því að fyrirkomulagið ætti að vera svipað eins og þegar bændur skipta túnum og löndum, þannig að það séu ekki allir traktorarnir á sama stað að slá.“

Hann segir þessi tíðindi samt ekkert óvænt, allir hafi orðið varir við það hve nýliðunin hefur verið slök.

„Samt er það þannig að stofnstærðarmælingar standast ekki alveg á, holutalningin annars vegar og veiðitölur hins vegar. Eins og við skiljum það gefur holutalningin stærri stofn, en það breytir því samt ekki að við förum ekkert að taka sénsa með þetta.“

Svæðavernd

Hafrannsóknastofnun ráðleggur ekki aðeins að veiðar verði takmarkaðar við 235 tonn heldur einnig að afmörkuð svæði verði vernduð gegn veiðum - meðal annars í Jökuldjúpi og Lónsdjúpi til verndar ungviði.

Aðeins 728 tonn voru veidd árið 2018, sem er minnsti afli frá upphafi veiða, og því var fjarri því að 1.150 tonna útgefinn kvóti hafi náðst. Til að minnka álag á humarslóð ráðleggur Hafrannsóknastofnun einnig að veiðar með fiskibotnvörpu verði bannaðar á afmörkuðum svæðum í Breiðamerkurdjúpi, Hornafjarðardjúpi og Lónsdjúpi. Aflaheimildin sem um ræðir er í raun rannsóknakvóti, en í upplýsingum stofnunarinnar vegna ráðgjafarinnar segir að hún sé gefin út svo „fylgjast megi með stærðarsamsetningu og dreifingu humarstofnsins“ og að veiðar á 235 tonnum árið 2019 ættu að gefa mynd af útbreiðslu og stærðarsamsetningu stofnsins.

Humarholum fækkar

Í gögnum Hafrannsóknastofnunar segir jafnframt að Þéttleiki humarholna við Ísland mælist nú með því lægsta sem þekkist meðal þeirra humarstofna sem Alþjóðahafrannsóknaráðið veitir ráðgjöf fyrir. Samkvæmt eldri stofnmatsaðferð (VPA), sem beitt var til mats á afrakstursgetu humarstofnsins, er stofnstærð 2019 metin einungis um þriðjungur af gátmörkum. Lengdarmælingar úr afla og stofnmælingum benda einnig til nýliðunarbrests á undanförnum árum. Veiðar á 235 tonnum árið 2019 ættu að gefa mynd af útbreiðslu og stærðarsamsetningu stofnsins.

Um horfur stofnsins segir að fyrirliggjandi gögn benda til að nýliðun sé í sögulegu lágmarki og að árgangar frá 2005 séu mjög litlir. Verði ekki breyting þar á má búast við áframhaldandi minnkun stofnsins.

Veiðibann var ekki útilokað

Lítil humarveiði á nýliðinni vertíð undirstrikar alvarlega stöðu humarstofnsins við landið og ekkert í gögnum vísindamanna Hafrannsóknastofnunar bendir til að humarveiði á næstu árum muni glæðast. Þessi niðurstaða er sú daprasta sem sést hefur síðan humarveiðar við landið hófust að einhverju marki. Þetta kemur þó hvorki sjómönnum né vísindamönnum á óvart, enda hafa verið blikur á lofti um nokkurra ára skeið um að humarveiði gæti farið hratt minnkandi.

Undanfarin ár hafa humarveiðar við Ísland einkennst af minnkandi afla. Nýliðunarbrestur hefur verið viðvarandi síðan 2005 og rannsóknir benda til þess að nýliðun í humarstofninum verði áfram með lakasta móti. Þetta kom meðal annars fram í erindi Jónasar Páls Jónassonar, fiskifræðings á Hafrannsóknastofnun, sem bar yfirskriftina Veiðar á leturhumri - sögulegt yfirlit aflabragða og stofnþróunar, og var flutt á málstofu Hafrannsóknastofnunar þegar stutt var liðið vertíðar í apríl síðastliðnum.

Erindið byggði á hans rannsóknum og forvera hans í starfi Hrafnkels Eiríkssonar. Þá var hans mat að ekki væri hægt að útiloka bann við humarveiðum  – svo alvarleg er staðan. Það væri í raun aðeins spurning um hvenær það gerist. Dregið hafi verið úr veiðum jafnt og þétt, en spurning hvort Hafrannsóknastofnun myndi í framhaldinu ráðleggja litlar eða engar veiðar. Sú ákvörðun myndi á endanum snúast um hvaða aðferðafræði væri hagfelldast að beita. Hafa beri hugfast að það eru alltaf verðmætar upplýsingar sem fást með veiðum.

Nú er ljóst að þessi leið verður farin að óbreyttu – rannsóknakvóti í stað veiðibanns.