þriðjudagur, 26. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Viðbótarheimildin breytir öllu

Guðsteinn Bjarnason
30. júlí 2021 kl. 10:00

Strandveiði sumarsins hefur gengið vel víðast hvar. MYND/Þorgeir Baldursson

Rúmur mánuður eftir af strandveiðitímabilinu

Strandveiðar sumarsins hafa gengið vel að mestu. Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda segir það muna öllu að ráðherra hafi aukið aflaheimildir sumarsins um 1.171 tonn af þorski. Það eigi að duga mönnum til þess að geta stundað veiðarnar út ágúst.

„Það er ágætis veður þannig að þessi vika verður fín,“ segir Örn í stuttu spjalli við Fiskifréttir. „En þessu er enn töluvert misskipt á milli svæða, það verður að segjast eins og er.“

Nú þegar um fimm vikur eru eftir að strandveiðitímabili sumarsins hafa bátarnir komið með 8.850 tonn að landi, þar af 8.170 tonn af þorski. Þetta er nokkru minna en á sama tíma í fyrra þegar 9.468 tonn voru komin á land, þar af 8.583 tonn af þorski.

Með viðbótinni má heildarafli sumarsins nú verða allt að 11.171 tonn af þorski, þúsund tonn af ufsa og 100 tonn af gullkarfa, eða samtals 12.721 tonn.

„Miðað við allar tölur á það að vera nægjanlegt út ágúst,“ segir Örn. Verðið hefur haldist gott þannig að sjómennirnir eru flestir býsna sáttir.

Nærri helmingur á A-svæði

Aflahæstu bátarnir eru búnir að veiða um og yfir 30 þúsund tonn, en meðalaflinn á bát er rúm 13.000 tonn. Nærri helmingur heildarveiðinnar hefur aflast á A-svæðinu fyrir vestan land, eða alls 4.362 tonn sem gerir nærri 17 þúsund tonn á bát. Útgefin leyfi eru alls 683 en þar af hefur 661 bátur landað afla. Þetta er litlu meira en í fyrra, en færri hafa sagt sig frá strandveiðum í ár.

Fiskistofa hefur í sumar reglulega birt upplýsingar um umframafla í strandveiðum, en reglugerð kveður á um að hver bátur megi ekki veiða meira en 650 tonn í hverri veiðiferð.

Að meðaltali hefur um þriðjungur bátanna veitt umfram heimild, samtals ríflega 100 tonn á fyrstu 11 vikum tímabilsins. Að meðaltali er umframaflinn reyndar ekki nema um 1,41% af heildarafla bátanna en þó hátt í hálft tonn að meðaltali á hvern þeirra báta sem fóru yfir skammtinn.

LS hvetur sína menn til að fara eftir reglunum.

„Þetta náttúrlega dregst af heildarpottinum,“ segir Örn. „Svo eiga menn að hlíta þeim reglum sem hafa verið settar hverju sinni. Við bara reynum að höfða til manna að vera réttu megin við strikin.“