föstudagur, 27. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Viðheldur öllum neðansjávarlögnum við Ísland

Guðjón Guðmundsson
8. júlí 2019 kl. 07:00

Fjarstýrði mælingabáturinn prófaður í Reykjavíkurhöfn fyrir skemmstu. Mynd/Friederike Roolf.

Sjótækni ehf. er hafsækinn verktaki sem þjónustar fiskeldi, leggur og viðheldur öllum neðansjávarlögnum við landið, rekur köfunarþjónustu og heldur úti mælingadeild. Fyrirtækið er með bækistöðvarnar á Tálknafirði.

Sjótækni ehf. er hafsækinn verktaki sem þjónustar fiskeldi, leggur og viðheldur öllum neðansjávarlögnum við landið, rekur köfunarþjónustu og heldur úti mælingadeild. Kjartan Hauksson framkvæmdastjóri, stofnandi og annar eigenda fyrirtækisins, segir að auk kaupa á fjarstýrðum mælingabát, þeim eina sinnar gerðar á landinu, sé fyrirtækið að innleiða nýja tækni í samstarfi við belgískt fyrirtæki sem lýtur að fyrirbyggjandi viðhaldi á mannvirkjum eins og stálþilum í höfnum.

Fyrirtækið er með bækistöðvarnar á Tálknafirði en sinnir verkefnum um allt land. Sjótækni hefur stundað neðansjávarrannsóknir og við kjarnaborun víða, m.a. í Skjálfandaflóa á 220 metra dýpi fyrir Orkustofnun þegar leitað var að olíu og gasi og sömuleiðis við kjarnaborun víða við leit að kalkþörungum.

Umhverfis- og öryggisvottun

„Það þarf mjög sérhæfðan búnað í öll okkar verkefni. Við erum með mikið af neðansjávarbúnaði til þess að taka kjarnasýni og nú erum við komnir með fjarstýrðan mælingabát sem fer út á vötn líka. Við getum verið í mælingavinnu ofansjávar og neðansjávar en rannsóknavinnan fer öll fram úti á sjó,“ segir Kjartan.

Mælingabáturinn er smíðaður í Noregi og er nú í verkefnum í Tálknafirði og framundan eru verkefni fyrir Vegagerðina. Báturinn er með búnað til að þrívíddarmæla sjávarbotn og taka hæðarpunkta með mikilli nákvæmni. Með þessu móti er halli og beygjur á neðansjávarlögnum ákvarðaður. Báturinn mælir einnig upp mannvirki eins og grjótvarnagarða, brýr og fjörur, land og kletta. Drægni hans frá landi er mest 2 km.

„Báturinn er rafknúinn og því umhverfisvænn og einfalt að koma honum á milli staða. Við erum sennilega eina verktakafyrirtækið á Íslandi sem er með umhverfis- og öryggisvottun,“ segir Kjartan.

Sérhæfðir í sæstrengjum

Sjótækni hefur annast lagningu og eftirlit með öllum sæstrengjum landsins í á þriðja áratug. Fyrirtækið hefur þjónustað alla sæstrengi milli lands og Vestmannaeyja. Báturinn Kafari er notaður í þessi verkefni ásamt sérútbúnum vinnupramma með tilheyrandi búnaði. Við vissar aðstæður þarf að grafa sæstrengi í botninn og er það gert með sérstöku neðansjávargröfu.

Eftirliti með öllum þessum strengjum og neðansjávarlögnum er sinnt með sérútbúnum, fjarstýrðum kafbáti en fyrirtæki á tvo slíka. Þeir ná niður á allt að 600 metra dýpi. Upplýsingum um ástand strengja og lagna er varpað upp á flatskjái í brú Kafarans. Veitur, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, á til dæmis lagnir í sjó í kringum höfuðborgina sem eru samtals um 25 km á lengd. Þetta eru skolplagnir, vatnslagnir og vetnislögn frá Keilisnesi að Eiðsvík og þaðan á landi upp á Höfða þar sem vetninu er dælt á bíla. Þegar Reykjavíkurborg keypti Kjalarnes lagði Sjótækni þangað þangað um þriggja kílómetra vatnslögn frá Korpu. Á þessu ári sinnir Sjótækni eftirliti með öllum neðansjávarlögnum í Reykjavík fyrir Veitur sem og öllum lögnum milli lands og Vestmannaeyja. Verkefnastaðan er því góð hjá fyrirtækinu um þessar mundir.

Gert við stálþil á 17 m dýpi í þurru rými

Fyrir utan neðansjávarlagnirnar er verkefnastaðan góð í viðhaldsvinnu á stálþilum út um allt land.

„Við erum með sérhæfðan búnað í þessi verkefni, svokallaða þurrkví, sem við erum einmitt að kynna um þessar mundir. Með henni er hægt að gera við stálþil í þurru rými. Við gerðum samstarfssamning við brautryðjendafyrirtæki á þessu sviði í Belgíu sem heitir Acotec. Þurrkvíin er hífð utan í þilið þar sem það þéttist að því og því næst er sjónum dælt úr kvínni. Þannig er hægt að vinna í þurru og loftræstu rými á allt að 17 metra dýpi. Þurrkvíin nýtist jafnt til þess að skoða þilin, gera við þau og til þess að húða þau með sérstöku efni sem stöðvar tæringu og er með 30 ára ábyrgð. Tæring í stálþilum er vandamál á öllu landinu og sé gripið til þessarar lausnar í tíma er hægt að spara mikla fjármuni. Við höfum kynnt þessa tækni um allt land og nokkur verkefni eru nú í farveginum. Við fengum styrk frá Vegagerðinni til þess að gera prófun með þessari aðferð og efni á hluta stálþilsins í Tálknafjarðarhöfn. Fylgst verður með niðurstöðunum af þessari prófun næstu árin.“

Eitt stærsta sviðið hjá Sjótækni er þjónusta við fiskeldisfyrirtækin. Fyrirtækið sér um að setja út sjókvíar, sinna eftirliti á þeim og viðgerðum og þvott á netunum í sjó. Kjartan segir þennan þátt hafa vaxið mikið í starfseminni.