fimmtudagur, 27. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Viðskiptavinir af öllum stærðum og gerðum

Guðjón Guðmundsson
4. júní 2019 kl. 16:00

Frá löndun í Ólafsvík. MYND/ALFONS FINNSSON.

Í gegnum Fiskmarkað Íslands í Ólafsvík fara í gegn rúmlega 4.000 tonn af fiski á ári. Fiskmarkaður Íslands er með tíu uppboðsmarkaði vítt og breitt um landið og Ólafsvík er einungis einn þeirra.

Í gegnum Fiskmarkað Íslands í Ólafsvík fara í gegn rúmlega 4.000 tonn af fiski á ári. Fiskmarkaður Íslands er með tíu uppboðsmarkaði vítt og breitt um landið og Ólafsvík er einungis einn þeirra. Til viðbótar rekur fyrirtækið flokkunar- og slægingarstöð á Rifi. Magnið sem fór í gegnum allar starfstöðvar fyrirtækisins voru tæp 32 þúsund tonn á síðasta ári en allir markaðirnir 27 sem tengjast kerfi Reiknistofu fiskmarkaðanna selja að jafnaði í kringum 105 þúsund tonn á ársgrundvelli.

Íslenskir fiskmarkaðir hófu starfsemi sína 1987. Það ár seldu þeir 24 tegundir en 1992 voru þær orðnar rúmlega 50. Með tilkomu fiskmarkaðanna má því segja að orðið hafi til verðmæti og grundvöllur fyrir vinnslu á öðrum aukategundum. Virðisauki af starfsemi fiskmarkaðanna í íslenskum sjávarútvegi er því áþreifanlegur. Frá því fiskmarkaðirnir hófu starfsemi hefur orðið til fjöldi fyrirtækja sem sérhæfir sig í vinnslu á óhefðbundnum tegundum, eins og t.d. flatfiski, keilu, steinbít og fleiri tegundum.

Þjónustan sem FMÍS í Ólafsvík býður er löndun, meðferð á afla, sölumeðferð og önnur tilheyrandi þjónusta. Einnig er boðið upp á slægingu á Rifi og segir Aron að þar sé líklega ein af afkastameiri flokkunar- og slægingarstöðvum í Evrópu. Álagið er misjafnt á starfsstöðinni í Ólafsvík eftir árstíðum og það er að sjálfsögðu mikið á vertíðinni en haustmánuðirnir eru rólegir. Mestu topparnir eru í janúar til mars en svo hægir á öllu meðan þorskveiðibann stendur yfir í apríl. Svo fer allt í gang aftur í maí fram að hausti þegar hægist aftur um.

Þótt Aron búi í Ólafsvík þarf hann starfa sinna vegna að vera á öðrum starfsstöðvum Fiskmarkaðs Íslands vítt og breitt um landið. Álagið milli starfstöðva er mismunandi eftir árstíma og hann reynir eins og frekast er að elta það öllum stundum. Á haustin er hann þess vegna talsvert meira á norðurslóðum en viðveran er síðan meiri á Suður- og Vesturlandi yfir vertíðina.

Þjónusta á breiðum grundvelli

„Ferlið er með þeim hætti að við höfum samband við bátana reglubundið í stað þess að margir séu að reyna að ná í okkur á svipuðum tíma með misjöfnum árangri. Við tökum niður meldingar um hvað menn vilja selja þann daginn og fyrirkomulagið á því. Þannig verða til tengsl milli viðskiptavina og fyrirtækisins. Verkefnin eru af mörgu tagi og fjölbreytileg. Flotinn óskar eftir aðstoð við hitt og þetta og í þessu þjónustuframboði felst samkeppni milli fiskmarkaða. Verkefnin eru svo fjölbreytileg að það yrði langloka að telja þau öll upp,“ segir Aron.

Gert er upp við útgerðina einu sinni í viku. Fiskmarkaðirnir á landinu selja í gegnum þjónustufyrirtækið Reiknistofu fiskmarkaðanna, RSF, sem mætti á vissan hátt líkja við Reiknistofu bankanna sem annast allar færslur bankanna. Í kerfi RSF tengjast sem fyrr segir 27 fiskmarkaðir. RSF er sjálfstætt fyrirtæki og er að 39% í eigu Fiskmarkaðar Íslands og aðrir eigendur eru Fiskmarkaður Suðurnesja og Fiskmarkaður Vestmannaeyja. Aron segir að kerfið skapi mikla hagræðingu fyrir alla hagaðila.

„Seljendur og kaupendur eru allir inni á sama stað að bjóða í fisk út um allt land. Bankaábyrgðir eru virkar fyrir alla markaði og flutningsaðilar eiga auðveldara með að halda utan um allt ferlið. RSF gerir síðan upp við fiskmarkaðina og Fiskmarkaður Íslands gerir sjálfur upp við alla sína viðskiptavini.“

Aron segir að með RSF sé komið upp mjög sterkt uppboðskerfi fyrir fisk á Íslandi fyrir innlenda framleiðendur og aðra fiskkaupendur sem mjög er litið til af erlendum aðilum. Allt ferlið fari fram á netinu og virkar snurðulaust. Fyrirkomulagið í Bretlandi til að mynda, sem er stór markaður fyrir íslenskan fisk, er mörgum árum á eftir því sem tíðkast hérlendis. Það er enn stuðst við spjöld og miða, hróp og köll.

Verð haldist gott

„Kerfið gerir mönnum auðveldara fyrir að vera með rekstur á fiskvinnslu í landinu þótt þeir séu ekki með útgerð á bak við sig. Viðskiptavinir íslensku fiskmarkaðanna eru reyndar af öllum stærðum og gerðum, jafnt hvað varðar sölu og kaup. Kerfið er þjált og það tapast ekki fjármunir í ferlinu því bankarnir ábyrgjast kaup. Kerfið er líka áreiðanlegt og öruggt út frá rekstrarlegum forsendum. Menn geta verið 100% um að allar greiðslur berist með öruggum hætti.“

Fiskmarkaður Íslands seldi í febrúar rúm 3.000 tonn. Meðalverðin á öllum tegundum var 262 krónur á kílóið og lækkaði þegar framboðið var hvað mest yfir hávertíðina. Aron segir að verð hafi haldist mjög gott í marsmánuði miðað við vertíð. Um miðjan mánuðinn var meðalverðið t.a.m. nálægt 244 krónur meðan það var verðið í rúmum 260 krónum í janúar og febrúar.

Margir samverkandi þættir

„Verðin hafa verið viðunandi á síðustu mánuðum. Við rýnum stöðugt í verðin og reynum að skilja þessar hreyfingar. Gengi krónunnar er vissulega veikara en það hefur verið síðastliðin tvö ár. Sumir nefna að skerðing hafi orðið í veiðum í Barentshafi sem dregur úr framboði inn á Evrópumarkað. Fiskverð í Noregi hafa verið hærri en oft áður sem dregur væntanlega úr verðfallli á fiski frá Íslandi. Það eru margir utanaðkomandi samverkandi þættir sem spila inn í verðmyndunina.“

Aron segir útflutning á óunnum gámafiski hafi aukist talsvert og margir vilji kenna því um að laun hafi hækkað mikið á Íslandi. Hagkvæmara sé því að vinna fiskinn í láglaunalöndum í Evrópu og selja hann svo inn á Evrópumarkaði.

„Innlendum framleiðendum gremst það að fá ekki tækifæri til þess að bjóða í þennan fisk áður en hann er fluttur út óunninn. Það sjónarmið skil ég ágætlega en fiskmarkaðirnir geta lítið haft með það að gera. Það væri þá heldur ríkisvaldsins að rýna í þættina á bak við þessa þróun og bregðast við ef því þætti það rétt skref út frá til dæmis byggðasjónarmiðum. Eins og staðan er í dag kallar umhverfið á hagræðingu og aukna verðmætasköpun. Innlend framleiðsla er að vinna í gerólíku launaumhverfi og íslenskur sjávarútvegur er í alþjóðasamkeppni,“ segir Aron.