fimmtudagur, 27. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Víkingur AK eina íslenska skipið á kolmunnamiðunum

28. maí 2019 kl. 09:00

Víkingur AK

Veiðin er orðin afar döpur og skipum hefur mikið fækkað á miðunum. Rússarnir eru flestir búnir með kvóta sína og aðeins fimm færeysk skip á miðunum auk Víkings.

Lokið var við að landa kolmunna úr Venusi NS - skipi HB Granda - á Vopnafirði á mánudag og er skipið nú komið til Akureyrar þar sem það fer í slipp. Að sögn Theódórs Þórðarsonar skipstjóra var skipið síðast með 2.740 tonna afla eftir átta til níu daga á veiðum.

Rætt er við Theódór í frétt á heimasíðu fyrirtækisins.

„Kolmunnaafli hefur verið að dragast saman síðustu daga og vikur. Við hófum veiðar í svokölluðu Ræsi suðvestan við Færeyjar en enduðum túrinn austan við eyjarnar. Aflinn var hvergi mikill en við náðum þó að fylla fyrir heimferð,“ sagði Theódór en að hans sögn er slipptakan á Akureyri hefðbundin og á skipið að vera klárt til veiða að nýju 10. til 12. júní.

Víkingur AK er enn að kolmunnaveiðum og að sögn Hjalta Einarssonar skipstjóra er Víkingur nú eina íslenska skipið á miðunum.

„Kolmunnaveiðin er ósköp döpur um þessar mundir eða innan við tíu tonn á togtímann. Skipum hefur mikið fækkað á miðunum. Rússarnir eru flestir búnir með kvóta sína og í dag eru bara fimm færeysk skip og eitt rússneskt að veiðum á svæðinu auk okkar,“ segir Hjalti í viðtali við heimasíðuna.