fimmtudagur, 13. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vilja að Dalai Lama verði hunsaður

25. apríl 2014 kl. 10:10

Dalai Lama. Norskir sjávarútvegsmenn vilja ekki styggja Kínverja.

Noregsheimsókn tíbetska friðarverðlaunahafans veldur titringi þar í landi.

Forsvarsmenn sjávarútvegsins í Noregi vonast til þess að engir opinberir embættismenn taki á móti friðarverðlaunahafanum Dalai Lama þegar hann heimsækir Noreg í maímánuði.  Þeir óttast aðgerðir gegn norskum sjávarafurðum í líkingu við þær sem gripið var til í kjölfar þess að kínverskum andófsmanni, Liu Xiaobe, voru veitt friðarverðlaun Nóbels árið 2010. 

Kínversk stjórnvöld hafa tekið skýrt fram að þau líti á það sem örgrun við sig ef norsk stjórnvöld taki á móti Dalai Lama. Af hálfu skipuleggjenda heimsóknarinnar hefur verið óskað eftir því að forseti norska stórþingisins hitti Dalai Lama en hann hefur hafnað þeirri málaleitan. 

Í leiðara Fiskeribladet/Fiskaren í Noregi kveður við nokkuð annan tón en þar er það gagnrýnt harðlega að sjávarútvegurinn skuli setja viðskiptahagsmuni sína ofar mannréttindum.

Tilefni heimsóknar Dalai Lama eru það að 25 ár eru liðin frá því að hann hlaut friðarverðlaun Nóbels.