þriðjudagur, 22. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vilja ala 20.000 tonn af laxi í Eyjafirði

Svavar Hávarðsson
9. nóvember 2017 kl. 09:40

Lokaðar kvíar við Sæterosen i Nordland í Noregi. Verklegar tækniprófanir hófust árið 2011 og árið 2014 hófst framleiðsla á laxi í stærri stíl. Mynd/AkvaFuture

Fiskeldisfyrirtækið AkvaFuture ehf., vill byggja upp stóra laxeldisstöð í Eyjafirði - byggt er á þeirra eigin tækni sem fyrirtækið segir vistvæna.

Fiskeldisfyrirtækið AkvaFuture ehf., sem er í eigu norska félagsins AkvaDesign AS, áformar að ala allt að 20.000 tonn af laxi í Eyjafirði í lokuðum sjókvíum, og hefur hafið umsóknarferlið með birtingu tillögu að mati á umhverfisáhrifum. Eldistæknin sem fyrirtækið nýtir er byggð á þeirra eigin hönnun og þróunarvinnu – um lokaðar kvíar er að ræða öfugt við þá eldistækni sem nýtt hefur verið hérlendis sem erlendis um árabil. Um sjálfbæra og vistvæna eldistækni er að ræða, að sögn fyrirtækisins sem hefur gefið góða raun í heimalandinu Noregi.

Stutt á veg komið
Rögnvaldur Guðmundsson, framkvæmdastjóri AkvaFuture ehf, segir málið stutt á veg komið. Hins vegar geti hann fullyrt að aðferðafræði fyrirtækisins sé ekki einungis nýlunda í Noregi, heldur í heiminum öllum.

„Þetta kerfi er hugarsmíði uppfinningamannsins Anders Næss, sem hefur unnið í áratugi í fiskeldi og hafði haft það í huga um langt árabil að það væri hægt að ala lax í sjókvíum á umhverfisvænni hátt en að hafa fiskinn í opnum kvíum, og hafa litla sem enga stjórn á umhverfisþáttum er tengjast eldinu. Fyrir um 10 árum var hann kominn það langt að hægt var að tala um að frumgerð þessarar eldistækni hafi verið fædd – og hægt að fara gera tilraunir. Fyrir um sex árum var lagt í eldi á laxi með þessari tækni í stórum stíl,“ segir Rögnvaldur og vísar til þess að fyrirtækið AkvaDesign AS var stofnað árið 2011 utan um hugmyndina, þegar tilraunaeldi í lokuðum eldiskvíum hófst, en þá hafði þróunarstarf staðið yfir í fimm ár.

Árið 2014 var hafin framleiðsla á laxi í stórum stíl í lokuðum kvíum og var fyrirtækið AkvaFuture AS stofnað fyrir þann rekstur í Noregi. Uppbygging laxeldis er á þremur eldissvæðum þar í landi og er slátrun byrjuð á 4-6 kílóa laxi. Áætlað er að slátra 2.000 tonnum á þessu ári og stefnt er á 6.000 tonna framleiðslu innan tveggja ára. Það er athyglisvert, þar sem hingað til hefur verið rætt um að lokuð kerfi gætu hentað til að ala lax þangað til hann nær vissri stærð – og hefur eitt kíló verið nefnt. Þá þyrfti að flytja hann í opnar kvíar og ala hann upp í sláturstærð.

Viðbragð við laxalús
Rögnvaldur segir að eftir sex ára rannsóknir sé staðfest að eldistæknin kemur alfarið í veg fyrir að laxalús skaði eldislaxinn, en hann játar því að eldistæknin hafi fyrst og síðast verið viðbragð við vandamálum tengdum laxalúsinni í Noregi. Ástæðan fyrir því að laxalús sé ekki vandamál með hinni nýju tækni sé sú að sjó er dælt inn í eldiskvíarnar af 25 - 30 metra dýpi, auk þess sem stöðugur og jafn straumur með örum vatnsskiptum virðist hafa jákvæð áhrif til að halda lúsinni í skefjum.

„Laxalúsin er langstærsta vandamálið – áskorunin – í fiskeldi í Noregi, Skotlandi, Færeyjum og víðar. Kostnaðurinn sem er þeirri baráttu samofin er gríðarlegur, og afföllin af fiski mikil,“ segir Rögnvaldur og nefnir að í verstu tilfellum geti fimmti hver fiskur í eldi drepist vegna þessa og fórnarkostnaðurinn eftir því. Má í því ljósi skoða þá staðreynd að framleiðsla Norðmanna á eldislaxi – þó hún sé mikil – hafi ekki aukist síðan 2012. Hins vegar sé yfirlýst markmið stjórnvalda og eldisgeirans að auka framleiðsluna upp í fimm til sex milljónir tonna á fyrir 2050, en unnið sé að því undir þeim takmörkunum að slík aukning verði ekki sjálfbær nema stærstu vandamálin við eldið séu leyst. Þar á meðal vandamálið vegna laxalúsar.

Með eldistækninni segir Rögnvaldur jafnframt að dregið sé stórlega úr öðrum umhverfisáhrifum laxeldisins, því með auðveldum hætti sé mögulegt að safna upp allt að 70% af botnfalli frá eldinu. Með notkun á lokuðum eldiskvíum dragi þess utan verulega úr líkum á að fiskur sleppi og áhrif eldis á villta laxastofna er því í algeru lágmarki. Aðeins við stórslys, svo sem ákeyrslu stærri skipa, umhverfisvá eins og hafís eða mistök við flutning á fiski sé hætta á slysasleppingu. Á þeim árum sem fyrirtækið hefur alið sinn fisk með þessari nýju tækni hafi aldrei tapast einn einasti fiskur.

Ísland
Miklir möguleikar eru á að nýta eldistæknina víðar en í Noregi, að sögn Rögnvaldar. Innanverður Eyjafjörður sé í því ljósi talin ákjósanleg staðsetning fyrir lokaðar eldiskvíar því þar er bæði skjólgott og hafstraumar miklir og stöðugir. En af hverju uppbygging eldis á Íslandi í stað frekari uppbyggingar í Noregi, sem við fyrstu sýn virðist nærtækara?

„Ný fiskeldisleyfi hafa ekki verið gefin út í Noregi síðan 2009. Við erum settir undir sama hatt og aðrir, þó við teljum okkur hafa sýnt fram á umhverfisvænni framleiðslu. Við fáum ekki leyfi hérna í Noregi. Þegar við erum komnir upp í þessi 5.500 til 6.000 tonn þá höfum við fullnýtt okkar heimildir til eldis,“ segir Rögnvaldur og játar þeirri spurningu að eina leiðin til vaxtar sé að leita hófanna eftir tækifærum utan Noregs.

Rögnvaldur játar því einnig að eldistækni AkvaFuture svari kallinu frá Íslandi um að byggt verði á umhverfisvænni eldistækni en þeirri sem fyrir er, þó fiskeldismenn fullyrði að sú tækni sé örugg og sjálfbær.

„Við höldum því fram fullum fetum að Ísland gæti verið í fararbroddi – verið brautryðjendur – í umhverfisvænu eldi, ef menn staldra við og endurskoða stefnumótunina sem var skilað til ráðherra í haust,“ segir Rögnvaldur og vísar til vinnu ráðherranefndar um framtíðaruppbyggingu fiskeldis hér á Íslandi – og var unnin í samstarfi við hagsmunaaðila, en hefur verið gagnrýnd grimmilega.

Gætu hafið eldi 2019
Framkvæmdin – fái hún brautargengi - er fyrirhuguð á sex aðskildum eldissvæðum í innanverðum Eyjafirði frá Hjalteyri að Svalbarðseyri. Framkvæmdasvæðin eru staðsett meira en 115 metra frá landi og því ekki á skipulagsskyldu svæði sveitarfélaga samkvæmt lögum. Þrátt fyrir það verða skipulagsáætlanirnar sveitarfélaga hafðar til hliðsjónar í umhverfismatsvinnunni, enda mikilvægt að starfsemin falli vel að svæðisáætlunum, eins og segir í tillögu AkvaFuture að matsáætlun vegna laxeldisins og var birt um miðjan október. Þar segir einnig að starfsemin mun væntanleg þurfa að byggja upp starfsaðstöðu á landi og nýta þá hafnarmannvirki hjá sveitarfélögunum Hörgársveit og Svalbarðstrandarhreppi.

Í tillögunni segir að væntingar eru um að niðurstöður umhverfismats liggi fyrir í lok vetrar 2018. Fáist umbeðin framleiðsluleyfi getur undirbúningur framleiðslu hafist sama ár og sjókvíaeldi þá hafist á vordögum 2019. Fyrsta framleiðsla myndi berast á markað í ársbyrjun 2021, samkvæmt framleiðsluáætlun.

Allt að 150 starfsmenn
„Til laxeldis þarf sérhæft starfsfólk sem hefur menntun í umhirðu og fóðrun á laxi. Jafnframt þarf kafara og vélfræðinga í föst stöðugildi, til að annast eftirlit og viðhald. Áætlanir gera ráð fyrir að 120-150 starfsmenn þurfi til að annast framleiðslu, slátrun og pökkun á 20.000 tonnum af laxi í Eyjafirði. Þar við bætast afleidd störf, svo sem flutningar og aðkeypt þjónusta,“ segir þar.

Þar eru ennfremur tiltekin fjölmörg atriði sem áhrif geta haft á umhverfi og samfélag í Eyjafirði. Komi til dæmis í ljós að fyrirhugað framleiðslumagn sé umfram burðarþol fjarðarins er ljóst að umfang framleiðslu verður endurskoðað með tilliti til þess. Jafnframt er AkvaFuture opið fyrir því að möguleg tilfærsla eldissvæða geti verið nauðsynleg ef staðsetning er metin óheppileg vegna umhverfisáhrifa eða skipulagsáætlana. Eins ef í ljós kemur að framkvæmdin hafi neikvæð áhrif á næringarefnabúskap sjávar í innanverðum Eyjafirði verður mögulegt að grípa til margvíslegra mótvægisaðgerða. Í því sambandi er helst að nefna að mögulegt er að draga úr framleiðslu á laxi, hefja ræktun á beltisþara og/eða kræklingi í næsta nágrenni við eldiskvíar fyrirtækisins.

Fleiri staðsetningar mögulegar
Það er mat fyrirtækisins að laxeldi í lokuðum eldiskvíum falli vel að áætlunum sveitarfélaganna á Eyjafjarðarsvæðinu. Staðsetningin sé því ákjósanleg þar sem fyrir er öflugt háskólasamfélag og þjónustustig iðnfyrirtækja er hátt. Ljóst er að AkvaFuture mun nýta sér sjávartengt háskólasamfélag á Akureyri í sínu þróunarstarfi og nýsköpun, segir Rögnvaldur.

Eins segir í matsáætlun fyrirtækisins að óháð útkomu úr mati á umhverfisáhrifum framkvæmdar í Eyjafirði er fyrirhugað að hefja mat á umhverfisáhrifum laxeldis í lokuðum eldiskvíum á öðrum skjólgóðum strandsvæðum við strendur Íslands, og styrkja þannig rekstrargrundvöll fyrirtækisins til langrar framtíðar.

Tillögunni mótmælt sem ótækri

Athugasemdir við tillögu AkvaFuture ehf., eru þegar komnar fram en fyrir hönd Veiðifélags Fnjóskár, Veiðifélags Eyjafjarðarár, Náttúruverndarsamtaka Íslands, Náttúruverndarfélagsins LAXINN LIFI og Veiðifélags Laxár á Ásum er fyrirætlunum „um risalaxeldi með norskum kynbættum laxastofni í sjókvíum í Eyjafirði alfarið mótmælt sem andstæðum lögum."

Eins segir í athugasemdunum sem unnar eru af Óttari Yngvasyni, hæstaréttarlögmanni: „Þá er fátæklegri tillögu að matsáætlun um laxeldisáform AkvafFuture ehf., sem virðist vera í eigu móðurfélagsins AkvaDesign AS í Brönnöysund í Noregi, mótmælt sem ótækri vegna margvíslegra annmarka og rangfærslna. Í hana vantar fjölmörg atriði, sem fjalla verður um í matsáætlun.

Helstu athugasemdir við tillöguna og fyrirætlanir framkvæmdaaðila eru í 19 liðum þar sem fjölmargt um áformin sjálf og hvernig staðið er að vinnunni við matsáætlunina er gagnrýnt harðlega.