föstudagur, 14. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vilja breyta hrálýsi í viðarolíu

3. nóvember 2017 kl. 13:00

Lýsi Omega 3

Matís og nýsköpunarfyrirtækið Magla vilja stórauka verðmæti lýsis

Nýtt verkefni er að hefjast hjá þekkingarfyrirtækinu Matís, sem sinnir fjölbreyttu rannsóknar- og nýsköpunarstarfi í matvælaiðnaði, þar sem þess verður freistað að þróa afurð úr fiskolíum til notkunar sem viðarvörn.

Verkefnið er unnið í samstarfi við nýsköpunarfyrirtækið Magla ehf., en finna þarf lausn á því hvernig breyta má óhreinu hrálýsi í verðmæta viðarolíu, og þá hvaða lýsi hentar til þess. Verkefnið hlaut sjö milljóna króna styrk frá AVS-sjóðnum.

Aldagömul aðferð
Í tilkynningu frá Matís segir að vitað sé til að fiskolíur hafa verið notaðar sem viðarvörn fyrr á öldum og reynst vel.

„Þekkingin hefur hins vegar mikið til glatast. Með aukinni áherslu á afturhvarf til eldri tíma og hráefna og betri þekkingu, skapast lag til að nýta fiskolíur, sem núna falla í úrgangsflokk, til verulega aukinna verðmæta en leysa þarf framleiðslu- og vöruþróunarvandamál áður en lengra er haldið.

Verkefnið hefst nú í nóvember og niðurstaða er talin liggja fyrir eftir rétt ár – eða í nóvember 2018.