þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vilja dreifa þorskveiðunum yfir árið

28. júní 2011 kl. 08:53

Fiskibátur við bryggju í Noregi.

Norsk stjórnvöld kanna hvernig unnt sé að aðlaga veiðarnar markaðinum betur.

,,Sem fremsta sjávarútvegsþjóð í heimi verðum við að geta afhent sjávarafurðirnar allt árið,” segir Lisbeth Berg-Hansen sjávarútvegsráðherra Noregs,  sem ætlar að afla upplýsinga á breiðum grundvelli um leiðir til þess að dreifa þorskveiðunum yfir árið.

Eins og fram hefur komið í Fiskifréttum gusast meginhluti þorsk- og ýsuaflans í Noregi inn á nokkrum fyrstu mánuðum hvers árs þegar auðveldast er að veiða fiskinn en þar í landi er kerfi sem tryggir fiskimönnum lágmarksverð fyrir aflann. Þessi vertíðarbragur á veiðunum gerir það að verkum að tiltölulega litlu er landað af þessum tegundum á öðrum tímum ársins. Augljóst er að svona verklag hentar ekki vel í markaðsstarfi eða til að hámarka arðinn af auðlindinni og heldur ekki til þess að jafna atvinnu yfir árið í fiskvinnslu.  

Á síðustu árum hafa verið ræddar ýmsar leiðir til þess að draga úr þessum vertíðarmynstri í þorskveiðum. Ein er sú að miða kvótaúthlutun ekki við almanaksár heldur við annað tímabil líkt og tíðkast á Íslandi. Önnur leið gæti verið sú að úthluta kvótanum ekki í einu lagi heldur skipta úthlutuninni á ákveðin tímabil ársins. Þetta og fleira verður skoðað, segir norski sjávarútvegsráðherrann sem lýsir eftir tillögum úr atvinnugreininni.