laugardagur, 23. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vilja frestun á greiðslu veiðigjalds

25. mars 2020 kl. 15:00

Hvað er í pokanum. (Mynd: Þorgeir Baldursson)

SFS segir rekstrarforsendur sjávarútvegsins að verulegu leyti brostnar

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi óska eftir því að frumvarpinu um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónaveiru verði breytt á þann veg að greiðslu veiðigjalds verði frestað með svipuðum hætti og öðrum sköttum og gjöldum.

Kjarninn sagði fyrstur frá. 

Í umsögn samtakanna um frumvarpið segir að íslenskur sjávarútvegur fari ekki varhluta af þeim fordæmalausu aðstæðum sem nú ríkja: 

"Ljóst er að markaður með íslenskar sjávarafurðir fer hratt minnkandi og sums staðar er hann raunar hverfandi. Veitingastaðir, hótel, mötuneyti og fiskborð matvöruverslana loka stórum dráttum um víða veröld, auk þess sem staða birgja og dreifikerfa er víða í óvissu. Eftirspurn eftir ferskum sjávarafurðum í Evrópu og Bandaríkjunum er því sem næst engin, með tilheyrandi áhrifum á útflutning fisks frá Íslandi. Þá má vænta þess að hægja mun á eftirspurn eftir frystum afurðum auk þess sem verð fari lækkandi þegar fleiri framleiðendur frysti sínar afurðir. Jafnframt getur hvenær sem er komið til þess að fiskvinnslur og útgerðarfyrirtæki þurfi að loka vegna starfsfólks í sóttkví eða samkomubanns stjórnvalda. Það hefði í för með sér meiriháttar hrun í framboði íslensks sjávarfangs," segir í umsögninni.

Við þessar aðstæður þurfi að fresta greiðslu veiðigjalds, enda sé það nú „innheimt í efnahagslegum hamförum, byggt á upplýsingum úr rekstri þegar til muna betur áraði."

Sömuleiðis óska samtökin eftir því að veita þurfi fiskeldisfyrirtækjum "meira svigrúm til að bregðast við fyrirséðum tekjusamdrætti við þær aðstæður sem nú eru uppi."