miðvikudagur, 23. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vilja kaupskipin undir íslenskan fána

Guðsteinn Bjarnason
27. ágúst 2020 kl. 07:00

Nýr Dettifoss kom til landsins í sumar, skráður í Færeyjum eins og sjá má. MYND/Jón Steinar Sæmundsson

Öll skip íslenskra kaupskipaútgerða eru nú skráð erlendis. Breytt lagaumhverfi á að breyta þessu. Fyrir þrjátíu árum sigldu nærri 40 kaupskip undir íslenskum fána.

Samgönguráðuneytið hefur birt í Samráðsgátt stjórnvalda áform um nýja löggjöf um íslenska alþjóðlega skipaskrá í þeirri von að fjölga megi skipum sem sigla undir íslenskum fána.

Hugmyndin er að að íslenskar kaupskipaútgerðir fái opinbera aðstoð, ívilnanir, til þess að Ísland verði samkeppnishæft á alþjóðavettvangi á sviði kaupskipaútgerðar.

„Til að þetta megi verða þarf að móta alþjóðlega samkeppnishæft rekstrarumhverfi fyrir kaupskipaútgerð með m.a. endurskoðun á laga- og skattaumhverfi málefnisins og öðrum þáttum sem tengjast þessari starfsemi,“ segir í skjali ráðuneytisins á Samráðsgátt stjórnvalda.

Lög um íslenska alþjóðlega skipaskrá voru samþykkt á Alþingi árið 2007 og var þeim ætlað að stuðla að skráningu kaupskipa hér á landi. Jafnframt voru sett lög um skattlagningu kaupskipaútgerða en þau lög voru felld úr gildi þar sem þau töldust ekki uppfylla kröfur EES-samningsins um ríkisstyrki.

Gildandi reglur virka ekki

Í nýju áformunum er lagt til að þessi lög frá árinu 2007 verði felld niður, en markmiðið nú rétt eins og þá er hið sama: Að fá íslensk skipafélög til að skrá kaupskip sín hér á landi.

Í skriflegu svari til Fiskifrétta frá Samgöngu og sveitarstjórnarráðuneytinu segir að umræða um stöðu íslenskrar kaupskipaútgerðar og íslenskra farmanna hafi verið uppi um nokkurt skeið.

„Það er ljóst að gildandi regluverk hér á landi hefur ekki leitt til þess að skipafélög skrái skip sín á íslensku alþjóðlegu skipaskrána og því hefur verið ákveðið að undirbúa nýja löggjöf á þessu sviði.“

Árið 1987 voru 39 kaupskip skráð hér á landi en næstu árin eftir það fækkaði þeim hratt. Árið 1991 voru þau komin niður í 17, og árið 1994 voru þau aðeins fjögur. Lengi vel var sementsflutningaskipið Skeiðfaxi á Akranesi eina flutningaskipið á skránni, og á þessu ári er ekkert eftir á íslenskri skrá.

Í svari ráðuneytisins segir að upplýsingum um skip í eigu íslensku skipafélaganna, sem skráð eru í erlendum skipaskrám, sé ekki haldið sérstaklega til haga af íslenskum stjórnvöldum. Samkvæmt upplýsingum sem aflað var árið 2019 hafi Samskip verið með fimm skip í Íslandssiglingum, þar af þrjú í eigu erlendra félaga tengd Samskipum. Tíu kaupskip voru í eigu Eimskips.

„Skipin sigla öll undir erlendum fána, þ.e. eru skráð í erlendum skipaskrám. Ekki liggur fyrir sundurliðun á skráningum eftir ríkjum,“ segir ráðuneytið.

Horft til Færeyja og Noregs

Þó segir ráðuneytið að mörg skip íslenskra fyrirtækja séu skráð í alþjóðlegu færeysku skipaskránni og verði því horft til fyrirkomulags þar í landi.

„Jafnframt verður horft til reglna sem gilda um norsku alþjóðlegu skipaskrána þar sem Noregur er hluti af EES og hefur ESA samþykkt þá ríkisaðstoð sem Noregur býður í gegnum skattaívilnanir.“

Ráðuneytið segir að við vinnslu frumvarpsins verði fjárhagsleg áhrif þess metin.

„Útreikningar liggja ekki fyrir að svo stöddu enda mun það ráðast ef endanlegu fyrirkomulagi skattlagningar.“

Ljóst sé þó „að áhrif verða víðtækari og ekki bundin við hreinar tekjur. Með fleiri skráningum kaupskipa má gera ráð fyrir að fleiri störf skapist, m.a. við þjónustu skipa, smíði og viðhald og óbeinar tekjur vegna hliðarstarfsemi sem fylgir skipaskrá.“

Árið 2014 skilaði var skipaður starfshópur til þess að kanna möguleika þess að útfæra lagaumhverfið þannig að Ísland verði samkeppnishæft á sviði kaupskipaútgerðar.

„Ef hin íslenska alþjóðlega skipaskrá á að vera raunhæfur valkostur fyrir útgerðir,“ segir í skýrslu starfshópsins frá nóvember 2014, „þarf að tryggja að hér séu í gildi samkeppnishæfar skattívilnanir fyrir skip sem þar eru skráð. Við útfærslu á sérstökum ívilnunum harf að taka tillit til athugasemda ESA. Í því samhengi má líta til þeirra ívilnana sem nú eru í gildi í Noregi og hafa hlotið samþykki ESA.“