mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vilja makrílvottun endurreista

Guðjón Guðmundsson
11. febrúar 2019 kl. 11:00

Makrílveiðar verða ekki MSC vottaðar eftir 2. mars næstkomandi. MYND/HAR

Afturköllun vottunar hafi ekki áhrif á markaðinn

Talsmenn nokkurra af stærstu framleiðendum og söluaðilum makríls trúa því að afturköllun á MSC vottun fyrir makríl, sem tekur gildi 2. mars næstkomandi, hafi ekki áhrif á markaðinn fyrir makrílafurðir.

Vetrarveiðum Norðmanna og Breta á makríl er lokið. Magnus Strand hjá uppsjávarvinnslunni Pelagia segir of snemmt að segja til um hvaða áhrif afturköllun MSC vottunarinnar hefur á markaðinn. Áhrifin verði örugglega einhver en of snemmt sé að segja til um hve mikil.

Mikið landað í Noregi

Mikið hefur verið landað af makríl í byrjun þessa árs í Noregi. Samkvæmt tölum Sildelaget hafði verið landað tæplega 48.000 tonnum 29. janúar síðastliðinn í samanburði við aðeins 29.000 tonn á sama tíma í fyrra.

Jan Otto Hoddevik, eigandi uppsjávarvinnslunnar Global Fish, kveðst telja að veiðum sé lokið og að útistandandi kvóti verði veiddur í haust.

Uppsjávarfyrirtækin leggja traust sitt á þetta sex mánaða stopp frá mars til september. Útflutningsráð sjávarafurða í Noregi hefur verið upplýst um að „afturköllun gæti verið tímabundin og ekki sé útilokað að vottunin verði endurreist áður en aðal veiðitímabilið hefst.“

Vonir sínar byggja talsmenn uppsjávarfyrirtækjanna á því að Alþjóðahafrannsóknaráðið, ICIS, hafi viðurkennt að áhöld væru uppi um nákvæmni í ráðleggingum stofnunarinnar um makrílveiðar.

Ian Gatt hjá Pelagic Sustainability Group í Skotlandi er vongóður um að vottunin verði einmitt endurreist fyrir haustið.

„Ef málum vindur fram eins og við eigum von á  gæti MSC endurreist vottunina. Við vonumst til þess að það gerist fremur hratt og auðvitað áður en veiðarnar hefjast á ný sem þýðir í október hjá okkur en síðla ágúst eða í byrjun september hjá Norðmönnum,“ segir hann í samtali við Undercurrent News.