mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vilja ógilda tollfrjálsan aðgang Noregs að ESB

5. ágúst 2015 kl. 13:27

Makríll á ís.

Skoskir uppsjávarfiskframleiðendur mótmæla samkomulaginu

Fulltrúar Samtaka skoskra uppsjávarfiskframleiðenda kalla eftir því að ríkisstjórnir Skotlands og Bretlands standi í vegi fyrir samningi sem gerir Noregi kleift að flytja út tollfrjálsan makríl og síld til Evrópusambandslanda.  

Aðilar í norskum sjávarútvegi, þar á meðal Norska sjávarafurðaráðið og sjávarútvegsráðherra landsins, hafa opinberlega fagnað samkomulaginu við Evrópusambandið sem gengið var frá í byrjun þessa mánaðar. Evrópuþingið á þó enn eftir að leggja blessun sína yfir það, að því er fram kemur á www.fishupdate.com.

Ian McFadden, formaður Samtaka skoskra uppsjávarfiskframleiðenda, segir að samningurinn verði til þess að grafa enn frekar undan veiðum og vinnslu á makríl í Skotlandi.  

 

„Samkomulagið er algjörlega út í hött á tímum þegar hefðbundnir og mikilvægir útflutningsmarkaðir Skotlands, eins og Rússland og Tyrkland, eru lokaðir og staða Úkraínu er veik. Okkur skilst að þrátt fyrir yfirlýsingarnar frá Noregi, eigi aðildarþjóðir ESB enn eftir að leggja blessun sína yfir samkomulagið og það taki ekki gildi nema það sé samþykkt af þeim öllum.“