þriðjudagur, 18. maí 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vilja Slysavarnaskólann til Vestmannaeyja

Gudjon Gudmundsson
5. júlí 2019 kl. 08:00

Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna. Mynd/Gígja

Skólinn sér marga agnúa á þeirri hugmynd

Þrír bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum hafa lýst sig jákvæða gagnvart því að gamli Herjólfur verði nýttur fyrir Slysavarnaskóla sjómanna að því gefnu að höfuðstöðvar og starfsemi skólans verði í Vestmannaeyjum. Hilmar Snorrason skólastjóri sér marga agnúa á þessari hugmynd og er alfarið á móti henni.

Árið 1998 gaf ríkisstjórn Íslands Slysavarnafélagi Íslands ferjuna Akraborg til nota fyrir starfsemi Slysavarnaskóla sjómanna og fékk hún þá nýtt nafn, Sæbjörg. Ferjan var smíðuð í Noregi 1974. Hún er því 45 ára gömul og hefur ekki haffærnisskírteini í dag.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum segja það í takt við stefnu stjórnvalda í byggðamálum að starfsemi Slysavarnaskólans verði flutt til Eyja. Margt mæli með því, eins og hlutfallsleg stærð fagstéttarinnar í samfélaginu þar og nálægðar við útgerð og vinnslu. Þá sé það stefna stjórnvalda að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni og flutningurinn myndi auka fjölbreytileika atvinnulífsins í Vestmannaeyjum.

Í samningum um yfirtöku reksturs Herjólfs ohf. var kveðið á um að gamli Herjólfur verði áfram til taks í Vestmannaeyjum fyrstu tvö árin.

Skólinn hefur áhuga á Herjólfi

„Við hjá Slysavarnaskóla sjómanna hefðum áhuga á því að nýta Herjólf fyrir okkar starfsemi en við höfum ekki áhuga á því að færa starfsemina frá Reykjavík. Það þyrfti að ráðast í viðgerðir á Sæbjörg ef við eigum að geta siglt henni en skólastarfið getur engu að síður með góðu móti verið áfram í skipinu. Herjólfur er auk þess í eigu íslenska ríkisins en ekki Vestmannaeyinga. Mér finnst hæpið að ríkið ætli gamla Herjólfi það hlutverk að vera varaskip lengur en í tvö ár. Það kostar heilmikla fjármuni að láta skip liggja bundið við bryggu án nokkurrar starfsemi en tilbúið til siglinga. Við leitum því ekki til Vestmannaeyinga eftir því að fá afnot af skipinu ef til þess kæmi. Það hefur verið í umræðunni að skoða þennan kost ef þetta skip er á lausu. Þþað gæti örugglega nýst okkur vel og gefið okkur aftur tækifæri til að sigla á hafnir landsins með námskeið þar með talið Vestmannaeyja,“ segir Hilmar.

Undrast útspilið

Hilmar kveðst hafa verið undrandi á þessu útspili bæjarfulltrúanna. Hann segir margt mæla gegn því að Slysavarnaskóli sjómanna verði í Vestmannaeyjum.

„Samgöngur til Vestmannaeyja hafa ekki verið beint heppilegar og traustar. Það fara um 2.000 sjómenn í gegnum skólann á hverju ári og samgönguleiðir liggja í gegnum Reykjavík fyrir þá sem búa úti á landi. Auk þess býr meginþorri íslenskra sjómanna á suðvesturhorni landsins. Hér erum við einnig með sérútbúið æfingasvæði til slökkvistarfa í samstarfi við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sem er mikilvægur þáttur í þjálfun sjómanna. Það verður ekki flutt til Vestmannaeyja.“