laugardagur, 23. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vilja sporna gegn samþjöppun

Guðsteinn Bjarnason
12. desember 2019 kl. 14:00

Þingmenn frá þremur flokkum stjórnarandstöðunnar, Viðreisn, Pírötum og Samfylkingunni, hafa lagt til breytingar á lögum um stjórn fiskveiða til að stuðla að dreifðari eignaraðild í sjávarútvegi og koma í veg fyrir að aflaheimildir safnist á fáar hendur.

Í greinargerð með frumvarpinu er vísað til þess að nokkur fyrirtæki séu farin að nálgast þau mörk um hámark aflahlutdeildar sem finna má í lögum. Auk þess geti fyrirtæki haft raunveruleg yfirráð yfir öðru fyrirtæki þó eignaraðild sé undir 50 þeim prósent mörkum sem miðað við til að fyrirtæki teljist tengd.

Þrjár breytingar
Lagt er til að þrjár breytingar verði gerðar á lögunum, en allar ná þær til útgerða sem ráða yfir 1% heildaraflahlutdeildar eða meira: Skrá þurfi fyrirtæki á markað eigi þau meira en 1% heildaraflahlutdeildar, miðað verði við 10 prósent eignaraðild til að aðilar teljist tengdir og gert verði skylt að upplýsa Fiskistofu um tengsl tveggja aðila ef annar ræður yfir 1% aflahlutdeildar eða meira og á kröfur á hinn „í þeim mæli að ætla má að fyrrnefndi aðilinn geti haft áhrif á reksturinn.“

Loks er lagt til að gefinn verði tíu ára frestur þeim sem nú þegar myndu samkvæmt nýjum reglum teljast tengdir aðilar til að fullnægja nýju skilyrðunum, og jafnframt fái þeir aðilar sem þurfa að skrá sig á markað tuttugu ára frest til þess.

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og einn stofnenda Viðreisnar, kynnti samskonar hugmyndir í grein á Hringbraut.is fyrir fáum vikum.