þriðjudagur, 26. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vilja víkka út samstarf þjóðanna

11. október 2021 kl. 07:00

Landanir færeyskra skipa hérlendis hafa lengi tíðkast. Hér er Fagraberg í höfn á Fáskrúðsfirði. Mynd/Óðinn Magnason

Skýrsla um samskipti Íslands og Færeyja.

Lagt er til í nýrri skýrslu um samskipti Íslands og Færeyja að aukinn kraftur verði lagður í viðræður um rammasamning landanna um fiskveiðar. Eins að stjórnvöld leitist eftir því að semja við Færeyjar um eflingu bláa hagkerfisins í löndunum báðum þar sem auðsýnt sé að hagsmunir þjóðanna fara þar saman. Þá er hvatt til samstarfs um hafrannsóknir og þróunar á sviði fiskeldis; vinnslu eldisafurða, rannsókna og sjúkdómavarna.

Til þessa hafa íslensk og færeysk stjórnvöld samið árlega um aflaheimildir og aðgang að lögsögum landanna. Þetta eru gjarnan tímafrekar viðræður og því hefur nú um nokkurt skeið verið unnið að gerð rammasamnings sem leysi þetta árlega fyrirkomulag af hólmi. Lagt er til af starfshópi sjávarútvegsráðherra að aukinn kraftur verði lagður í viðræðurnar um samninginn og honum lokið eigi síðar en fyrir árslok 2021.

Vöktun og rannsóknir

Þrátt fyrir að Hafrannsóknarstofnun eigi í talsverðu samstarfi við færeyska starfsbræður sína er talið að frekara samstarf gæti verið gagnlegt báðum þjóðum. Ekki síst í ljósi örra breytinga á náttúrufari norðurslóða, hlýnunar hafs og breytinga í göngumynstri flökkustofna, sem hafa bein áhrif á hagsmuni Íslands og Færeyja. Lagt er til að Hafró og Havstovan geri með sér yfirgripsmikinn samstarfssamning um rannsóknir og fái að borðinu aðrar stofnanir á sviði umhverfisrannsókna teljist þess þörf.

Samstarf í eldi

Fiskeldi er mjög stór atvinnugrein í Færeyjum. Eldi á fiski hefur vaxið hratt á Íslandi undanfarin ár og stefnir í frekari vöxt. Í skýrslunni segir að virkt samstarf á sviði fiskeldis, þróunar greinarinnar, vinnslu afurða, rannsókna og sjúkdómavarna gæti reynst heilladrjúgt skref.

„Fyrirtæki í báðum löndum standa framarlega í vinnslu sinni en ljóst er að gera má betur til að skapa sérstöðu og auka markaðshlut sinn á heimsvísu og verðmæti afurða. Lagt er til að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið bjóði til samráðs milli samtaka fiskeldisfyrirtækja á Íslandi og í Færeyjum með það að markmiði að formfesta samráð þeirra á milli með þátttöku sjávarútvegsyfirvalda í báðum löndum,“ segir þar.

Leit og björgun

Fiskistofa hefur átt í óformlegum samskiptum við Arbeiðs- og brunaeftirlitið í Færeyjum. Þá gefur þjónustu- og upplýsingasvið Fiskistofu út veiðileyfi fyrir færeysk fiskiskip í íslenskri lögsögu og óskar eftir veiðileyfum fyrir íslensk skip í færeyskri lögsögu á grundvelli samninga þar að lútandi.

Þá á Landhelgisgæslan í samstarfi við nokkrar stofnanir í Færeyjum sem tengjast leit og björgun, öryggismálum og löggæslu á hafinu. Einn samstarfssamningur er í gildi milli Landhelgisgæslunnar og færeysku systurstofnunarinnar sem nefnist Vörn. Samningurinn formgerir samstarf milli landanna varðandi leit og björgun á hafi.

Þá eiga Vörn og Landhelgisgæslan samstarf á grundvelli ýmissa alþjóðlegra samninga og samþykkta og varðandi fiskveiðieftirlit. Einnig er í gildi samningur um miðlínu fiskveiðilögsagna landanna sem inniheldur m.a. sameiginlegt nýtingarsvæði sem Landhelgisgæslan og Vörn er ætlað að hafa sameiginlegt eftirlit með. Varðandi siglingaöryggi almennt og leit og björgun vegna loftfara starfa stofnanirnar einnig saman samkvæmt alþjóðlegum samþykktum.