laugardagur, 15. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vill leyfa kvótaframsal smæstu bátanna

30. apríl 2014 kl. 10:22

Reine, Noregur.

Norska ríkisstjórnin vill opna á kvótasölu hjá bátum undir 11 metrum að stærð.

Norsk stjórnvöld hafa fram að þessu verið íhaldssamari en Íslendingar í afstöðu sinni til framsals varanlegra aflaheimilda fiskiskipa og leiguframsal er með öllu óheimilt. 

Á síðari árum hefur þó smám saman verið slakað á takmörkunum á framsali varanlegra heimilda og leyft að sameina kvóta stærri fiskiskipa. 

Nú er komið að smæstu bátunum, því ríkisstjórn Noregs hefur lagt fram tillögu til umsagnar um að opna fyrir kaup og sölu á veiðiheimildum innan flokks smábáta undir 11 metrum að lengd með það fyrir augum að sameina kvóta tveggja eða fleiri báta á einn með því skilyrði að hinir bátarnir verði teknir úr reksti. 

Í því sambandi er gert ráð fyrir að 20% af kvóta þess báts sem heimildirnar eru fluttar af renni í sameiginlegan pott viðkomandi bátaflokks rétt eins og gildir um aðra skipaflokka þegar framsal af þessu tagi á sér stað. Ekki er í tillögum stjórnvalda tiltekið hversu marga kvóta má sameina í þessum smæsta bátaflokki í hverju tilviki en í hinum skipaflokkunum hefur verið miðað við fjóra. 

Tillaga stjórnvalda er í samræmi við vilja ársfundar Norges Fiskarlag, heildarsamtaka í norskum sjávarútvegi, en eigi að síður eru skiptar skoðanir um hana meðal smábátamanna. Sumir telja það styrkja rekstrargrundvöll þessarar útgerðar að unnt sé að sameina kvóta en aðrir eru þeirrar skoðunar að þetta muni kippa grundvellinum undan útgerð á smæstu og afskekktustu stöðunum.