miðvikudagur, 26. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vill samning um deilistofna

16. janúar 2020 kl. 11:32

Kristján Þór Júlíusson ásamt Virginijus Sinkevičius, nýjum framkvæmdastjóra ESB á sviði umhverfis, hafs og fiskveiða. MYND/Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Kristján Þór Júlíusson átti fund með nýjum framkvæmdastjóra ESB á sviði umhverfis, hafs og fiskveiða.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, átti í dag fund í Brussel með Virginijus Sinkevičius, nýjum framkvæmdastjóra ESB á sviði umhverfis, hafs og fiskveiða.

Helsta umræðuefnið var staðan í samningaviðræðum strandríkjanna varðandi deilistofnana í Norður-Atlantshafi, einkum makríl, kolmunna og norsk-íslenska síld.

Kristján Þór lagði áherslu á að samningar tækjust sem allra fyrst. Hann hafi gefið sendinefnd Íslands þau fyrirmæli að beita sér fyrir því að koma viðræðum af stað hið fyrsta.

„Enginn heildstæður samningur er í gildi um stjórn veiða úr stofnunum og veitt er langt umfram ráðgjöf vísindamanna,“ segir í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. 

„Óbreytt ofveiði úr þessum stofnum mun hafa ófyr­ir­séðar af­leiðing­ar og grafa und­an orðspori samn­ingsaðila sem ábyrgra fisk­veiðiþjóða,“ er haft eftir Kristjáni í tilkynningunni. „Það er allra hagur að þær viðræður skili árangri.“

Einnig ræddu þeir tvíhliða samskipti Íslands og Evrópusambandsins á sviði sjávarútvegsmála. Í því samhengi lagði Kristján Þór áherslu á afnám tolla á sjávarafurðir frá Íslandi, það væri stórt hagsmunamál fyrir Ísland en um leið Evrópusambandið í ljósi aukinnar fiskneyslu innan sambandsins.