sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vinna grálúðu og karfa á Japansmarkað

7. júní 2018 kl. 14:31

Karfi unninn í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Mynd/Smári Geirsson

Vinnslan hentar vel þegar hlé er á vinnslu uppsjávartegunda.

Fyrir rúmum mánuði hófst vinnsla á grálúðu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Síðar hófst einnig vinnsla á karfa.

Frá þessu segir á heimasíðu fyrirtækisins.

Þar segir jafnframt að það er Anna EA sem veiðir grálúðuna í net en karfinn kemur frá ísfisktogurum Síldarvinnslunnar.

Að sögn Jóns Gunnars Sigurjónssonar, yfirverkstjóra í fiskiðjuverinu, gengur þessi vinnsla vel og þykir hún henta ágætlega þegar hlé er á vinnslu uppsjávartegunda.

„Það er búið að taka á móti um 400 tonnum af grálúðu frá því að vinnslan hófst og þegar grálúðu vantar er unninn karfi. Það eru oftast 15-20 manns sem starfa við vinnsluna. Það var stutt hlé á vinnslunni í kjölfar sjómannadags vegna þess að skipin voru ekki á sjó um helgina en nú er von á grálúðu og sú vinnsla fer brátt á fullt á ný,“ segir Jón Gunnar.

Bæði lúðan og karfinn eru unnin fyrir Japansmarkað. Grálúðan er hausskorin, sporðskorin, hreinsuð og fryst en karfinn er heilfrystur, segir í frétt Síldarvinnslunnar.