þriðjudagur, 14. júlí 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vinna úr 4.000 tonnum af roði

Guðsteinn Bjarnason
8. febrúar 2020 kl. 14:00

Tómas Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Codland. MYND/Aðsend

Fullvinnsluverkefnin í Grindavík að komast á skri

Um þessar mundir er verið að standsetja Collagenverskmiðjuna í Grindavík og reiknað með að starfsemin hefjist í febrúar. Þá er ekkert lengur að vanbúnaði því að hefja þar fullvinnslu úr slógi með lýsisframleiðslu til manneldis.

„Við höfum verið keyra upp tækin og nú er verið að pússa nokkra hluti varðandi framleiðsluleyfið. Við höfum verið að tala við Mast og þau hafa verið mjög hjálpsöm. Það er allt mjög jákvætt,“ segir Tómas Þór Eiríksson framkvæmdastjóri um Collagenverksmiðju fyrirtækisins Marine Collagen.

„Þetta hefur allt tekið lengri tíma en við áætluðum,“ en upphaflega var meiningin að starfsemin færi af stað síðastliðið vor.  „Tækin voru klár þannig að við getum strax farið að framleiða, en núna getum við farið að læra meira á vöruna og þróa hana áfram. Allt svoleiðis tekur tíma.“

Stofnendur fyrirtækisins eru nokkur stór sjávarútvegsfyrirtæki hér á landi, Þorbjörn, Vísir, Brim og Samherji, ásamt spænska fyrirtækinu Junca Gelatines sem hefur langa reynslu af framleiðslu á gelatíni og kollageni.

Stefnt er að því að framleiða bæði kollagen og gelatín úr 4.000 tonnum af roði árlega.

Það er fullvinnslu- og frumkvöðlafyrirtækið Codland sem hefur haldið utan um kollagenverkefnið. Á snærum Codlands í Grindavík er einnig þurrkfyrirtækið Haustak sem ekki síður er með metnaðarfull áform um vinnslu lýsis úr slógi.

Boltinn til baka

Þau áform strönduðu hins vegar á Evrópureglugerð sem bannar vinnslu afurða til manneldis úr innyflum. Eftir áralangt stapp við Matvælastofnun samþykkti sjávarútvegsráðherra loks í haust að heimila framleiðslu á lýsi og fiskimjöli úr öllum fisk- og fiskeldisafurðum, jafnvel til manneldis, „svo framarlega sem meðferð hráefnisins uppfylli kröfur um hollustuhætti og matvæli.“

Þar með er Haustaki ekkert að vanbúnaði að setja verksmiðju sína í gang. Sömu sögu er væntanlega að segja af togaranum Sólbergi ÓF, sem Rammi hf. gerir út frá Siglufirði. Um borð er ný vinnslulína frá Héðni hf. sem ætluð er til þess að framleiða lýsi úr slógi, beingörðum og hausum en hefur ekki geta nýst vegna afstöðu stjórnvalda.

„Kristján og ráðuneytið hafi bara farið í þetta mál eins og við vildum að þeir gerðu,“ segir Tómas. "Við sögðum að boltinn væri hjá ráðuneytinu og þeir kýldu hann bara til baka, þannig að nú þurfum við að standa við stóru orðin og setja allt ferlið af stað."

Hann segir gott að vita til þess að stjórnvöld geti stigið inn í málin til að leysa úr reglugerðarflækju á borð við þessa.

„Ég er bara ótrúlega ánægður með þá, miðað við það hvað ég var fúll út í þá áður.“