þriðjudagur, 18. maí 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vinnslan ákveður veiðarnar

Guðjón Guðmundsson
29. apríl 2021 kl. 08:00

Sigurfari GK á landleið. Mynd/Hafþór Hreiðarsson

Snurvoðarbátarnir að gera það gott.

Gott fiskirí hefur verið hjá snurvoðarbátunum sem Nesfiskur gerir út. Svo gott að takmarka þarf sóknina svo veiðin sé í takt við þarfir vinnslunnar og markaðanna. Árni Ólafur Þórhallsson, skipstjóri á Sigurfara GK, segir fínustu veiði, eins og yfirleitt á þessum árstíma, en það sem helst er öðruvísi nú er hin mikla ýsugengd.

Sigurfari var í höfn þegar rætt var við Árna Ólaf. Báturinn er nú með aflahæstu snurvoðarbátunum og aflinn kominn vel yfir 200 tonn í apríl.

  • Árni Ólafur og Hörður Harðarson stýrimaður við að landa í Sandgerði á dögunum. Mynd/Hafþór Hreiðarsson

Árni Ólafur hefur verið á snurvoð allt árið svo áratugum skiptir og þekkir því vel til veiðanna.

„Þetta hefur verið ágætt í vetur og fín veiði alveg frá því í endaðan janúar. Við erum yfirleitt nálægt landi bæði á Hafnarleirum og Sandvík og sem fyrr segir hefur fiskiríið verið gott en það er bara háð þeim í landi hve mikið við tökum. Oftast er það þannig að vinnslan ákveður hvað við tökum,“ segir Árni Ólafur.

Hann segir það alveg áberandi hve mun meira er af ýsu núna á miðunum en oftast áður. Það kalli á stóra möskva. Kannski breyti það þó einhverju núna að bætt hafi verið í kvótann en tilkynning barst um það nýlega að 8.000 tonnum hefði verið bætt við ýsukvótann sem þá stendur í alls rúmum 52 þúsund tonnum.

Mikið stendur til

Nesfiskur gerir nú út þrjá snurvoðarbáta; Sigurfara, Sigga Bjarna GK og Benna Sæm GK og einnig hefur Aðalbjörg RE verið á Hafnarleirum. Mikið stendur til hjá Nesfiski því senn líður að því að fyrirtækið taki á móti nýjum Baldvin Njálssyni GK, 66 metra löngum skuttogara sem er í smíðum hjá Armon skipasmíðastöðinni í Vigo á Spáni. Nýja skipið verður einn tæknivæddasti skuttogari flotans og verður búinn sjálfvirkum frystibúnaði og vöruhóteli. Smíði skipsins hófst haustið 2019. Skipið verður með um 4.000 hestafla aðalvél frá Wartsila og skrúfan er engin smásmíði, 5 metrar í þvermál. Skipið verður fyrir vikið einkar sparneytið. Raunar er sagt að Baldvin Njálsson verði í hópi sparneytnustu skipa í þessum flokki.

Nesfiskur gerir nú út einn frystitogara, tvo ísfisktogara, þrjá snurvoðarbáta og tvo línubáta. Fyrirtækið er með frystingu, ferskfiskvinnslu, saltfiskverkun, skreiðar- og hausaþurrkun í Garði og frystingu og ferskfiskvinnslu í Sandgerði.