miðvikudagur, 26. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vinnslustöðin hyggur á nýsmíði

Guðsteinn Bjarnason
25. janúar 2020 kl. 13:00

Breka VE var siglt nýjum inn í Vestmannaeyjahöfn vorið 2018. MYND/Óskar P. Friðriksson

Framkvæmdastjórinn segir reglugerðir miða við gamla tíma og hindra smíði skipa sem best henti til veiða og betri orkunýtingar. Vill fá reglum um aflvísi breytt.

Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum er byrjuð að undirbúa nýsmíði en vill ræða við stjórnvöld um breyttar reglur áður en ákveðið verður hvernig skip verður smíðað.

Eyjafréttir skýrðu fyrst frá þessu í síðustu viku.

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, segir reglugerðir um lengdartakmarkanir, vélarafl og skrúfustærð standa í vegi fyrir því að fyrirtækið geti látið smíða skip af því tagi sem best myndi henta, bæði til veiða og einnig til að draga úr olíunotkun.

„Reglugerðirnar koma í veg fyrir að hægt sé að nýta sams konar tækni og er í borð um Breka til að minnka olíunotkun og þá um leið útblástur,“ segir Sigurgeir í spjalli við Fiskifréttir.

„Þetta er allt niðurnjörvað í reglunum og miðað við einhvern gamlan tíma, óháð þeirri tækniþróun sem við höfum séð.“

Breki er 51 metra ísfisktogari, smíðaður í Kína árið 2018. Hann kom í stað tveggja skipa Vinnslustöðvarinnar, Jóns Vídalíns og Gullbergs. Breki veiðir á við þessi tvö skip en eyðir um þriðjungi minna af olíu en þau tvö samanlagt.

Orkunotkun lágmörkuð

Sigurgeir segir orkunotkun á hvert kíló af afla jafnast á við það sem þekkist á línubátum.

„Jón Vídalín notaði 0,4 lítra til að veiða hvert kíló, Brekinn notar 0,24 lítra til að veiða hvert kíló. Svo þegar Brekinn er í mars að veiða þorsk og ýsu stutt frá okkur, þá eru það ekki nema 0,11 lítrar sem er minna heldur en línubátarnir allir sem hér eru gerðir út.“

Vinnslustöðin hefur áhuga á að láta smíða tvö skip. Annað yrði 29 metra togbátur, sem yrði að lágmarki eitt þúsund hestöfl. Hitt yrði 42 metra bátur sem líka getur dregið net og yrði hugsanlega með snurvoð. Hann þyrfti að vera að lágmarki 1.500 hestöfl.

Vélarstærðin á að nýtast til að kæla afla, knýja spil og togveiði, en ljósavélin yrði varaafl.

Vinnslustöðin ætlar sem sagt að óska eftir því við stjórnvöld að reglum um aflvísi verði breytt þannig að draga megi úr orkunotkun en jafnframt veiða nær landi.

Samkvæmt núgildandi reglum mega fiskiskip ekki veiða nær landi en þrjár eða fjórar sjómílur á ákveðnum svæðum nema vera styttri en 29 metrar eða 42 metrar, allt eftir svæðum, eða með aflvísi sem er að hámarki 1.600 eða 2.500, aftur mismunandi eftir svæðum.