mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vinnslustöðin stefnir ríkinu vegna sérstaks veiðigjalds

4. maí 2014 kl. 13:51

Höfnin í Vestmannaeyjum. (Mynd: Mats Wibe Lund)

Telur gjaldið brjóta gegn stjórnarskránni

Vinnslustöðin hf. í Vestmannaeyjum hefur stefnt fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins og krefst þess að fá endurgreitt sérstakt veiðigjald sem lagt var á sjávarútvegsfyrirtæki á fiskveiðiárinu 2012-2013 með lögum nr. 74/2012, alls um 516 milljónir króna. 

Vinnslustöðin unir álagningu almenns veiðigjalds á sama fiskveiðiári. Það nam tæpum 200 milljónum króna. Málssóknin tekur því einungis til sérstaka veiðigjaldsins.

Ragnar H. Hall hæstaréttarlögmaður flytur málið fyrir hönd Vinnslustöðvarinnar og hefur stefnan þegar verið birt ríkislögmanni fyrir hönd fjármálaráðherra. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 27. maí nk.   

Fordæmalaust má skattasögu hlér á landi

Krafist er endurgreiðslu á þeirri forsendu að álagning sérstaka veiðigjaldsins stangist á við ófrávíkjanleg ákvæði í stjórnarskrá Íslands. Fyrir því eru færðar margvíslegar röksemdir í stefnunni: 

• Hið sérstaka veiðigjald sé í eðli sínu skattur til ríkisins en ekki gjald fyrir aðgang að fiskimiðunum og slík skattheimta eigi sér engin fordæmi í skattasögu landsins. 

• Álagningarreglurnar og skatthlutfallið feli það í sér að rekstrarafkoma  fyrirtækis á borð við Vinnslustöðina sé nánast þjóðnýtt. 

• Regluverkið til grundvallar skattheimtunni sé afar flókið, erfitt viðfangs og ógegnsætt. 

• Alþingi hafi fært framkvæmdavaldinu í hendur vald til að skattleggja handhafa veiðiheimilda nánast eftir geðþótta sínum. 

• Greiðendur gjaldsins hafi engin tök á að staðreyna hvort forsendur þess standist, enda sé þar byggt á gögnum sem greiðendur hafi ekki heimild til að kanna (lögum samkvæmt er veiðigjaldanefnd ætlað að safna upplýsingum frá Hagstofu Íslands og skattayfirvöldum til að reikna út „rentuna“, gjaldstofn sérstaks veiðigjalds).

Eignarskattur í reynd, afturvirk skattlagning, mismunun skattaðila

Vinnslustöðin telur að sérstaka veiðigjaldið sé í reynd eignarskattur sem lagður er á veiðiheimildir sem varðar eru af eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Gjaldstofninn, svokölluð renta, sé hins vegar ekki tengdur ætluðu verðmæti veiðiheimildanna, heldur sé gjaldið fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 reiknað út frá rekstrarniðurstöðum ársins 2010. Þetta þýði í raun að verið sé að skattleggja rekstur fyrirtækisins afturvirkt, sem er óheimilt samkvæmt 77. grein stjórnarskrárinnar.  

Vinnslustöðin telur einnig að mjög veruleg mismunun sé innbyggð í regluverkið. Það birtist í því að fjölmargir eigendur veiðiheimilda þurfa ekki að greiða gjaldið en hinir verða í staðinn að greiða þeim mun meira.  

Jafngildir eignaupptöku

Með sérstöku veiðigjaldi er mjög hátt hlutfall af rekstrarafkomu Vinnslustöðvarinnar flutt í ríkissjóð. Engu er skeytt um áhrif þess á rekstur fyrirtækisins, fjárfestingargetu þess o.s.frv. 

Skatthlutfallið er svo hátt að það felur í reynd í sér upptöku eigna, sem fer í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar að mati fyrirtækisins.