sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vinnslustöðin frestar byggingu nýs uppsjávarfrystihúss

5. apríl 2008 kl. 03:28

Forráðamenn Vinnslustöðvarinnar hafa ákveðið að fresta uppbyggingu á nýju og fullkomnu uppsjávarfrystihúsi um eitt ár. Fyrirhugað var að rífa nyrsta hluta núverandi húsnæðis og byggja þar upp nýja vinnslulínu fyrir uppsjávarfisk, síld og loðnu.

Stefán Friðriksson, aðstoðarframkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar segir að ekki hafi verið hjá þessu komist. „Það eru í raun tvær ástæður fyrir því að við ákváðum að bíða í eitt ár með að ráðast í þessa miklu framkvæmd. Annars vegar er það döpur útkoma eftir loðnuvertíðina en við gerðum auðvitað ráð fyrir mun betri afkomu að henni lokinni. Auk þess er staðan í fjármálaheiminum ekki hagstæð þegar ráðast á í svona framkvæmd og í rauninni eru engir möguleikar á að fá hagstæð lán. Þannig að okkur er nauðugur einn kostur en það er alveg möguleiki að við vinnum einhvern hluta af verkinu í ár. Hugsanlega breytum við eitthvað tækjabúnaði með endurnýjun í huga."

Sudurlandid.is skýrir frá þessu og vitnar í Vaktina.