sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vísir setur upp 12 þjarka í vinnslu sinni í Grindavík

10. maí 2019 kl. 11:55

Sigurður Ólason framkvæmdastjóri fiskiðnaðar hjá Marel, Pétur Hafsteinn Pálsson framkvæmdastjóri Vísis og Óskar Óskarsson sölustjóri hjá Marel handsala hér samninginn

Þegar er einn þjarki í vinnslu Vísis. Ómar Enoksson, yfirmaður tækniþróunar hjá Vísi, segir búnaðinn hafa farið langt fram úr væntingum, en hann raðar fiskbitum í kassa af mikilli nákvæmni, eftir meðalþyngd og umbeðnum stykkjafjölda.

Sjávarútvegsfyrirtækið Vísir og tæknifyrirtækið Marel undirrituðu samstarfssamning um innleiðingu á róbót – búnaði (þjörkum) á sjávarútvegssýningunni í Brussel á þriðjudaginn.

Frá þessu segir á heimasíðu Vísis en fyrirtækin tvö hafa unnið að sameiginlegri þróun á vélvæddri pökkun afurða í fiskvinnslu Vísis frá því í september. Samningurinn gerir ráð fyrir uppsetningu á allt að 12 þjörkum í starfsstöð Vísis í Grindavík.

Einn þjarki hefur nú þegar verið í prufukeyrslu hjá Vísi síðastliðinn mánuð. 

Ómar Enoksson, yfirmaður tækniþróunar hjá Vísi, segir búnaðinn hafa farið langt fram úr væntingum, en hann raðar fiskbitum í kassa af mikilli nákvæmni, eftir meðalþyngd og umbeðnum stykkjafjölda.

Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis segir þetta „eðlilegt framhald af þróuninni með skurðarvélarnar og við erum mjög bjartsýn á að þessar breytingar skili okkur góðum árangri.“ 

Þar er jafnframt haft eftir Pétri að því séu „spennandi tímar framundan og óhætt að segja að fjórða iðnbyltingin sé hafin í sjávarútveginum.“