sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vísitala gullkarfa sú hæsta frá 1985

12. apríl 2012 kl. 12:33

Karfi

Minna fékkst af skötusel í rallinu en undanfarin sjö ár.

Vísitala gullkarfa hefur farið hækkandi frá 2008 og mældist nú sú hæsta frá 1985 í nýafstöðnu togararalli. Að venju fékkst mest af karfanum djúpt út af Faxaflóa og Breiðafirði. Lítið fékkst hinsvegar af smákarfa undir 30 cm.

Stofnvísitala ufsa var hærri en undanfarin fimm ár en þó ekki jafn há og var árin 2004-2006.

Vísitala steinbíts var lág líkt og tvö undanfarin ár.

Stofnvísitala löngu fór hækkandi á árunum 2003-2007 eftir að hafa verið í lágmarki áratuginn þar á undan. Mælingin í ár er sú hæsta frá 1985, en öryggismörk mælingarinnar eru mjög víð.

Vísitala keilu hefur haldist há frá árinu 2004.

Minna fékkst af skötusel en undanfarin sjö ár. Allir árgangar skötusels frá 2008 eru
lélegir í samanburði við árgangana frá 1998-2007 og fyrsta mæling á árganginum frá 2011 bendir til að hann sé þeirra lélegastur.

Magn hrognkelsis í vorralli jókst á árunum 2001-2006, en hefur farið minnkandi síðan. Rallvísitalan nú hækkaði nokkuð frá fyrra ári þegar hún var í lágmarki og er nú svipuð og árin 2009-2010.