föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Viðskipti með hvalkjöt aukast þrátt fyrir bann

21. júní 2009 kl. 14:09

Viðskipti með hvalkjöt á milli hvalveiðiþjóðanna hafa aukist þrátt fyrir bann við veiðum, að því er fréttaveitan AFP hefur eftir baráttumönnum fyrir náttúruvernd.

Í fréttinni segir að viðskiptin séu þegar orðin að átakamáli á milli stuðningsmanna og andstæðinga hvalveiða fyrir fund Alþjóðahvalveiðiráðsins sem hefst í Portúgal á morgun.

Ísland, Noregur og Japan, sem sagðar eru helstu hvalveiðiþjóðir heims, vilja aflétta veiðibanni, sem er bannað samkvæmt CITES-samkomulaginu, Convention on International Trade in Endangered Species. Japanar, Norðmenn og Íslendingar hafa reynt að fá hvali af þessum lista en án árangurs.

Deilt um hvort góður markaður er enn til staðar í Japan

Í frétt AFP er haft eftir forystumanni Greeenpeace í Skandinavíu að það sýni örvæntingu hvalaiðnaðarins í Noregi að hann geti ekki selt afurðir sínar þar í landi og reyni að losna við þær erlendis fyrir hvaða verð sem er. Japanar borði hins vegar æ minna hvalkjöt og þar séu vöruhús þegar full af kjöti sem japanskir hvalveiðimenn losni ekki við.

Á móti er haft eftir fulltrúa hvalveiðimanna að í Japan séu yfir 120 milljónir manna og sumir þeirra hafi enn smekk fyrir hvalkjöt. Þeir hafi ekki allir bragðað það en séu opnir fyrir því enda vanir að neyta sjávarafurða. Þá er bent á að Japanar borði hvalspik sem Norðmenn líti á sem úrgang.