föstudagur, 27. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vitum lítið um gæði fiskmjöls

Guðsteinn Bjarnason
13. júlí 2019 kl. 07:00

Fiskimjöl.

Marvin Ingi Einarsson hjá Matís segir fiskimjöl og lýsi hafa setið á hakanum í rannsóknar- og þróunarstarfi.

Samnorrænu rannsóknarverkefni um fiskmjöl og lýsi er að ljúka eftir nokkurra ára vinnu, sem leiddi í ljós að þekkingu á gæðum hráefnisins er ábótavant.

Megin niðurstöður verkefnisins eru þær að gæði hráefnis, fiskmjöls og lýsis séu enn ekki nægilega vel skilgreind. Gefin hefur verið út skýrsla um verkefnið þar sem helstu niðurstöður eru raktar.

Marvin Ingi Einarsson, iðnaðarverkfræðingur hjá Matís, sá um verkstjórn en ásamt honum unnu að þessu verki vísindamenn frá DTU í Danmörku, bæði DTU Aqua og DTU Food, og Nofima í Noregi.

„Við þurfum að átta okkur betur á því hvað það er sem gerir fiskmjöl gott. Við vitum að það er gott en við vitum ekki alveg hvað við erum í raun og veru að selja“ segir Marvin, og á þar bæði við að þekkingu á hráefninu sjálfu er ábótavant og sömuleiðis eru hráefnisgæðin ekki nægilega vel skilgreind.

Ásamt Matís, DTU og Nofima tóku fulltrúar framleiðenda einnig þátt í verkefninu, en þeir komu frá FF Skagen í Danmörku, Havsbrún í Færeyjum og Triple Nine í Noregi. Fjármögnun verkefnisins var í höndum EU-fishmeal, sem eru samtök evrópskra fiskmjölsframleiðenda en verkefnið hlaut einnig styrk frá Norrænu Ráðherranefndinni (AG-fisk).

Marvin segir að fyrir nokkrum árum hafi þessi hópur því ákveðið að gera fiskmjöli betri skil en hingað til hefur verið gert.

Fiskmjölið hefur gleymst
„Bæði í saltfisk og ferskum fisk hefur verið tekið til hendinni, en fiskmjölið hefur kannski pínu gleymst,“ segir hann. „Að vísu hafa verið stöðugar endurbætur í fiskmjölsiðnaðinum, en þær hafa að mestu snúið að orkusparnaði, og reyndar kælingu líka en minni áhersla hefur samt verið á hráefnið sjálft, að skoða hvað það er í hráefninu sem til dæmis fóðurframleiðendur eða eldiskarlarnir eru að leita að.“

Niðurstöðurnar eru sem fyrr segir þær helsta að betri þekkingu skorti á hráefninu og nákvæmari skilgreiningu vanti á hráefnisgæði. Ennfremur þurfi fiskmjölsiðnaðurinn að öðlast betri þekkingu á þörfum og kröfum viðskiptavina sinna.

„Eitt lykilatriði úr þessu verkefni er að skoða þarf hvernig hráefnisgæðin breytast alveg frá veiðum og í mjöl. Hvað gerist til dæmis í sjóðaranum, hvaða amínósýrur eyðileggjast þar? Hvað gerist í þurrkaranum?“

Marvin segir reyndar þekkt að fóðurframleiðendur viti oft meira um fiskmjöl en fiskiðnaðurinn.

„Þeir keyra eldistilraunir með fóðrið og gera miklu fleiri efnamælingar en fiskmjölsframleiðendur. Það sem við þurfum er að koma þessari þekkingu yfir til fiskmjölskarlanna, má segja.“

Matís undirbýr eldistilraunir
Marvin greinir jafnframt frá því að Matís sé nú að hefja uppbyggingu á eldisaðstöðu til þess að gera fóðurtilraunir, því til þess að kanna eiginleika fóðursins betur sé í mörgum tilvikum nauðsynlegt að framkvæma eldistilraunir.

„Við erum í þessu núna hjá Matís, og ætlum að setja upp hringrásarkerfi þannig að við getum alið lax og greint meltanleika fóðursins, og ætlum síðan að gera fóðurtilraunir á fullorðnum laxi. Það er eitthvað sem ekki er farið af stað víða í heiminum. Menn hafa mest verið að horfa á seyði í ferskvatni.“

Þetta verkefni er ekki langt á veg komið, enn er verið að sækja um styrki og undirbúa eldisaðstöðuna.

Þegar gæði hráefnisins eru grannt skoðuð kemur meðal annars í ljós að ákveðnar amínósýrur skipta sköpum.

„Umhverfið er þannig að við erum að nota mikið af plöntupróteini í fóður, en þá verður skortur á ákveðnum amínósýrum. Þegar við notum síðan fiskimjölið í bland, þá erum við að hífa upp amínósýrujafnvægið. Þetta er til dæmis eitt af því sem mikilvægt er að leggja áherslu á.“

Lítill verðmunur
Marvin segir að oft sé lítið um mælingar á amínósýrum í fóðri, og það stafi ekki síst af því að slílkar mælingar séu dýrar.

„En þetta er það sem fóðurframleiðendurnir eru í rauninni að leita eftir. Þeir eru að leita eftir samsetningu á réttum amínósýrum. Málið er að við vitum í raun og veru ekkert hvar í ferlinu við erum að skemma þessar amínósýrur sem eru hvað verðmætastar. Þetta þarf að skoða,“ segir hann.

„Önnur mikilvæg mæling er síðan meltanleiki próteina, eða í rauninni hvað fiskurinn getur nýtt sér af próteininu.“

Vandinn við gæðamálin er að sögn Marvins ekki síst sá að hágæðamjöl er ekkert mikið dýrara en annað mjöl.

„Í dag er ekkert mikill munur á verði á hágæðamjöli og öðru lakara mjöli, þannig að ef við könnum þetta betur og getum við sýnt fram á hvað við erum með, þá getum við vonandi fengið betra verð fyrir gótt mjöl. Eins og er þá er kannski ekkert mikill hvati fyrir útgerðina að fara í að framleiða hágæðamjöl, því verðið er bara svo svipað.“