sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vonbrigði í Barentshafinu

Guðjón Guðmundsson
22. júlí 2021 kl. 16:00

Blængur NK. Mynd/Hafþór Hreiðarsson

Minni veiði hjá togurunum en oft áður í Barentshafinu.

Fjögur íslensk skip hafa verið við veiðar í Barentshafi og um helgina landaði Blængur NK 800 tonnum á Neskaupsstað. Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri segir veiðina mun dræmari en undanfarin ár. Óvíst er hvort skipið fari aftur í Barentshafið eftir þeim 500 tonnum sem það á óveitt af sínum kvóta. Siglingin fram og til baka tekur sjö sólarhringa.

„Við erum búnir að vera að í tæpa 40 daga og það var rólegt yfir þessu. Það er allt annar bragur yfir þessu en undanfarin ár. Það er miklu minni fiskgegnd. Síðustu tvö ár sem við höfum farið þarna hafa verið mjög góð og árið þar á undan þokkalegt. En þetta fer í flokk með lakari árum. Það sama á við um öll íslensku skipin sem voru þarna. Það náði enginn kvótanum. Við erum með helmingi minni afla núna en í fyrra. Það er bara minni fiskgegnd og til stendur að minnka kvótann þarna alveg um 20% á næsta ári,“ segir Bjarni Ólafur.

Óvíst með framhaldið

Auk Blængs voru miðunum Arnar HU frá FISK Seafood, Vigri RE og Örfirisey frá Brim. Auk þeirra var á miðunum fjöldinn allur af rússneskum skipum. Til stendur að Arnar fari aftur í Barentshafið til að reyna að klára kvótann en óvíst er með hin skipin.

„Það er bara lítið af fisk þarna og hann er líka mun smærri en verið hefur. Það er óvíst hvað við gerum. Við eigum eftir að ná í eitthvað af grálúðu sem þyrfti helst að ná í líka.“

Bjarni Ólafur segir að veiðin verði að vera meiri til þess að réttlæta svona úthald. Siglingar fram og til baka taki sjö til átta sólarhringa og því fylgi ærinn tilkostnaður. Ekki verði annað sagt en að túrinn hafi verið vonbrigði.

Hann sagði að fínasta veður hefði verið á þessum slóðum og yfirleitt sé þessi árstími bestur hvað það varðar. Kvóti Blængs í Barentshafinu var nálægt 1.300 tonnum af óslægðum þorski sem er þá tæp 1.000 tonn af slægðum fisk.

„Ef við ætlum að ná þessum 500 tonnum sem eftir standa þurfum við að gera það fyrir áramót annars fellur kvótinn bara niður. Við reyndum fyrir okkur í fyrrahaust en það gekk ekki vel. En það sem blasir við núna er að ástandið er greinilega ekki gott á þorskstofninum þarna,“ segir Bjarni Ólafur.

Kemur þess utan fram í máli hans að Blængur veiddi frá landhelgislínu Noregs og Rússlands og allt austur á svonefndan Gæsabanka, en það eru um 240 mílur frá línunni og austur á bankann.

 Heitt í blíðunni

Arnar HU landaði um svipað leyti og Blængur 945 tonnum upp úr sjó, þar af um 823 tonnum af þorski. Guðjón Guðjónsson skipstjóri tók í sama streng og Bjarni Ólafur og sagði veiðarnar hafa gengið illa miðað við undanfarin ár.

Eyþór Atli Scott, skipstjóri á Vigra RE, sagði að siglingin norður í Barentshaf hafi tekið tæpa fimm sólarhringa. Einmuna blíða hafi verið og hiti farið yfir 30 stig. Hann lét betur af veiðinni en kollegar hans á Blæng og Arnari og sagði aflann góðan. Vigri var 30 daga á veiðum og var með alls 1.030 tonn upp úr sjó. Afli Örfiriseyjar var meiri enda getur skipið dregið tvö troll samtímis.