laugardagur, 28. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vorleiðangur Hafró: Mikil áta í kringum landið

16. júní 2008 kl. 11:36

Hiti og selta voru yfir langtímameðaltali sunnan og vestan við land og undir eða nærri því fyrir norðan.

Fyrir Austurlandi voru hiti og selta um meðallag. Mikill gróður var vestur og norður af landinu en lítill annars staðar nema við Suðurströndina.

Mikil áta var víðast hvar í kringum landið einkum úti fyrir Suðurströndinni. Þetta eru helstu niðurstöður úr árlegum vorleiðangri Hafrannsóknastofnunar.  

Hinn 26. maí sl. lauk árlegum vorleiðangri Hafrannsóknastofnunarinnar sem farinn var á rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni. Leiðangurinn var hluti af langtímavöktun á ástandi sjávar, næringarefnum, gróðri og átu á hafsvæðunum við Ísland.

Athuganir voru gerðar á alls 96 stöðvum í hafinu umhverfis landið, bæði á landgrunninu sjálfu og utan þess. Þá var á völdum stöðvum safnað sýnum vegna mælinga á geislavirkum efnum og ólífrænum kolefnissamböndum og gerðar voru mælingar með síritandi mælitækjum á siglingaleið skipsins.

Auk þessa var ný svifsjá prófuð í leiðangrinum.

Helstu niðurstöður vorleiðangurs voru eftirfarandi:

1. Ástand sjávar

Sjávarhiti í hlýsjónum suður og vestur af landinu var 6°- 9°C og seltan 35,10 - 35,30, sem eru há gildi eins og undanfarin ár. Innflæði inn á Norðurmið var vestantil og náði selturíkur hlýsjór austur með Norðurlandi undir fersku yfirborðslagi úti fyrir Mið-Norðurlandi. Hiti í efri lögum sjávar var þó heldur undir meðallagi fyrir norðan land en seltan í efri lögum var um meðallag.

Á landgrunni úti fyrir Norð-Austurlandi og Austur-Íslandsstraumi utan landgrunnsins norðaustur af landinu voru hiti og selta um og yfir langtímameðaltali. Úti fyrir Austfjörðum voru sjávarhiti og selta í efri lögum sjávar um meðallag (2° - 3°C, 34,6 – 34,8). Skil heita og kalda sjávarins suðaustanlands voru um Lónsdjúp.

2. Næringarefni og plöntusvif

Í upphafi leiðangurs var enn talsverður gróður í Faxaflóa, en greinilega farið að draga úr vextinum. Vestur af Faxaflóa og utan í landgrunnsbrúninni vestur af Látrabjargi var mikill gróður og greinilega farið að ganga á styrk næringarefna frá því sem mældist s.l. vetur. Styrkur næringarefna var hár norður af Vestfjörðum og því von á gróðuraukningu þar, meðan vorhámarkið var yfirleitt yfirstaðið næst landi og lítill gróður austur að Siglunesi.

Yfir landgrunninu úti fyrir Norðurlandi var mikill gróður og farið að draga verulega úr styrk köfnunarefnis í lagskiptum yfirborðssjónum, ef undan eru skildar stöðvar yfir og utan við kantinn. Við skoðun á dreifingu næringarefna sýndi lágur styrkur kísils að austan og sunnan landsins var vorhámark kísilþörunga yfirstaðið í hlýjum Atlantssjónum, bæði austan við landgrunnið og suður um, en talsverður gróður mældist enn meðfram ströndinni.

3. Áta

Þegar á heildina er litið var átumagn við landið í vorleiðangri talsvert yfir meðallagi. Átumagn mældist nálægt meðallagi úti fyrir Vesturlandi, en hins vegar nokkuð undir meðallagi fyrir norðan.

Fyrir austan land var átumagn um og yfir meðallagi. Að venju fannst mjög mikið af átu í kalda sjónum djúpt norðaustur og austur af landinu, þar sem stórar og hægvaxta kaldsjávartegundir voru algengastar.

Út af Suðurlandi fannst um tvisvar sinnum meira af átu en í meðalári, sérstaklega var mikið af átu, einkum rauðátu, í Háfadýpi og á Selvogsbanka. Séu niðurstöður um átu bornar saman við vorið 2007 kemur í ljós að á Vestur-, Austur- og Suðurmiðum var átumagn meira nú en minna á Norðurmiðum.

Leiðangursstjóri í vorleiðangri var Sólveig R. Ólafsdóttir, en alls tóku 10 rannsóknamenn frá Hafrannsóknastofnuninni þátt í leiðangrinum. Skipstjóri var Ásmundur Sveinsson.