sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Voru komnir með fjögur dýr

14. júní 2018 kl. 15:32

Hrefnuveiðar eru hafnar. MYND/HAG

Hrafnreyður KÓ hóf hrefnuveiðar sl. sunnudag

Hrefnuveiðar hófust á fremur rólegum nótum  í síðustu viku en betur gekk í byrjun þessarar viku þegar þrír dýr veiddust. Einungis eitt skip, Hrafnreyður KÓ, er við veiðarnar sem stendur og var komið með fjögur dýr á þriðjudag.

Sjávarútvegsráðherra ákvað að loka veiðisvæðum í Faxaflóa í vor og hefur Hrafnreyður verið við veiðar norðarlega í Faxaflóa. Stór hluti Faxaflóa hefur verið lokaður fyrir hrefnuveiðar frá því í tíð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur þáverandi sjávarútvegsráðherra. Gunnar Bergmann, framkvæmdastjóri IP útgerðar í Hafnarfirði, segir að heimilt sé að veiða á litlu svæði norðarlega í flóanum.

„Þetta gerir það að verkum að menn geta gleymt því að fara í dagróðra og þurfa að vera lengur úti.“

Blikur á lofti

Heimilt er að veiða 217 hrefnur á þessu ári en veiðarnar hafa verið langt undir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar undanfarin ár. Í fyrra veiddust til að mynda einungis 17 hrefnur. Gunnar segir að afraksturinn hafi verið óvenju lakur í fyrra því reynt var að veiða hrefnur alveg út júlímánuð. Hann segir að með banni við veiðum í stærstum hluta Faxaflóa, þar sem tæplega 83% af öllum veiddum hrefnum síðastliðins áratugar hafi fengist, séu blikur á lofti varðandi framtíð þessara veiða. Það verði einfaldlega að koma í ljós síðar hver framvindan verði í sumar. Hann segir að miðað við undanfarin ár yrði hann sáttur ef það tækist að veiða tíu dýr.

Í fyrra veiddust fjögur dýr út af Skagafirði sem sýnir breytta hegðun hrefnunnar. Hrefnan leiti annað eftir æti og láti sig yfirleitt hverfa þegar makríll fer að ganga inn á hefðbundnar hrefnuslóðir. „Við sáum mikla breytingu á þessu þegar makríllinn fór að ganga hingað fyrst. Það hefur klárlega áhrif,“ segir Gunnar.

Nægur markaður er fyrir hrefnukjöt innanlands og flutti IP útgerð inn kjöt frá Noregi í vetur til að anna eftirspurninni.